Fjórir eru látnir og einn illa slasaður eftir að kláfur féll til jarðar í hlíðum Fatio-fjalls á Ítalíu í dag.
Ferðamenn voru í kláfnum og einn starfsmaður EAV, sem rekur almenningssamgöngur víða um Ítalíu. Lést starfsmaður EAV í slysinu að sögn New York Times.
Lína slitnaði og olli því að kláfurinn féll til jarðar. Kláfurinn færði ferðamenn frá Castellammare di Stabia til Faito-fjalls, um þriggja kílómetra leið.
Níu manns voru fastir í öðrum kláfi í kjölfar slyssins, en kláfurinn stöðvaðist neðar í dalnum, nær Castellammare di Stabia. Slökkvilið kom þeim til bjargar.
Rannsókn er hafin á slysinu en yfir 50 slökkviliðsmenn komu að björguninni. Slæm veðurskilyrði höfðu áhrif, en þoka og hvassviðri er á svæðinu.