Dæmdur maður kom sér í dag undan öryggisgæslu þar sem hann lá á Karolinska-sjúkrahúsinu í Huddinge í Svíþjóð og naut þar aðstoðar ættingja síns, konu sem sló til öryggisvarðar. Þetta staðfestir lögregla bæjarins við sænska ríkisútvarpið SVT.
Var maðurinn á leið í afplánun eftir að hafa hlotið refsidóm, meðal annars fyrir umferðarlagabrot, en hafði þó ekki formlega verið frelsissviptur er atburðurinn átti sér stað. Þetta segir Anna Westberg upplýsingafulltrúi lögreglunnar.
Þrátt fyrir leit lögreglu hefur fanginn verðandi ekki fundist, en hann hafði svigrúm til að ná sér í leigubifreið er út af sjúkrahúsinu var komið og yfirgaf vettvang með henni.
Kveður Westberg upplýsingafulltrúi enga almannahættu ríkjandi vegna flóttans.
Hefur lögregla nú lokið yfirheyrslum yfir þremur öryggisvarða sjúkrahússins, sem leigðir eru til starfa frá öryggisfyrirtækinu Securus, auk þess sem hún fer yfir upptökur öryggismyndavéla til að glöggva sig á rás atburða.
„Starfsmenn okkar komu að málinu. Okkar forgangsverkefni er að veita þeim umönnun og aðstoða á vettvangi,“ segir Salomon Bekele, er orð hefur fyrir Securus, við SVT og lætur þess auk þess getið að vörðurinn sem konan sló til hafi ekki hlotið alvarleg kaun af.