Styttir sumarfrí þingmanna

Friedrich Merz er verðandi kanslari Þýskalands.
Friedrich Merz er verðandi kanslari Þýskalands. AFP/Ina Fassbender

Friedrich Merz, leiðtogi kristi­legra demó­krata og verðandi kansl­ari Þýska­lands, ætl­ar sér að stytta sum­ar­frí þing­manna í ár vegna þeirra verk­efna sem framund­an eru. 

Kristi­leg­ir demó­krat­ar fengu flest at­kvæði allra í kosn­ing­un­um í Þýskalandi í fe­brú­ar. Flokk­ur­inn myndaði síðan rík­is­stjórn með jafnaðarmanna­flokki Olaf Scholz sem var þriðji stærsti flokk­ur­inn í kosn­ing­un­um. Sú rík­is­stjórn tek­ur við 6. maí næst­kom­andi. 

Stór verk­efni eru framund­an fyr­ir Merz sem hef­ur lofað því að ætla að grípa til aðgerða varðandi bæði inn­flytj­enda­stefnu og efna­hags­stefnu Þjóðverja. 

Ætlar að efla landa­mær­in

Merz sagði við blaðamenn fyrr í dag að það fyrsta sem hann ætli að gera þegar hann tæki við völd­um er að ná í gegn laga­breyt­ing­um sem stuðla að sterk­ari landa­mær­um og draga úr skri­fræði í inn­flytj­enda­mál­um. 

Til þess að hægt sé að ná þess­um mál­um í gegn ásamt öðrum mik­il­væg­um mál­um er nauðsyn­legt, að mati Merz, að þingið starfi leng­ur en vana­lega yfir sum­ar­tím­ann.

Efa­semd­ir í Þýskalandi

Efa­semd­ir eru uppi í Þýskalandi um þá rík­is­stjórn sem brátt tek­ur við völd­um. Fylgi bæði jafnaðarmanna og kristi­legra demó­krata hef­ur fallið í skoðana­könn­un­um. Hægri flokk­ur­inn AfD hef­ur sótt veru­lega á í skoðana­könn­un­um og mæl­ist nú með jafn mikið fylgi og kristi­leg­ir demó­krat­ar. 

Merz seg­ist fullmeðvitaður um það að efa­semdaradd­ir heyr­ist víða. Hann seg­ir að margt þurfi að gera til þess að hægt sé að sann­færa þjóðina um ágæti rík­is­stjórn­ar­inn­ar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert