Friedrich Merz, leiðtogi kristilegra demókrata og verðandi kanslari Þýskalands, ætlar sér að stytta sumarfrí þingmanna í ár vegna þeirra verkefna sem framundan eru.
Kristilegir demókratar fengu flest atkvæði allra í kosningunum í Þýskalandi í febrúar. Flokkurinn myndaði síðan ríkisstjórn með jafnaðarmannaflokki Olaf Scholz sem var þriðji stærsti flokkurinn í kosningunum. Sú ríkisstjórn tekur við 6. maí næstkomandi.
Stór verkefni eru framundan fyrir Merz sem hefur lofað því að ætla að grípa til aðgerða varðandi bæði innflytjendastefnu og efnahagsstefnu Þjóðverja.
Merz sagði við blaðamenn fyrr í dag að það fyrsta sem hann ætli að gera þegar hann tæki við völdum er að ná í gegn lagabreytingum sem stuðla að sterkari landamærum og draga úr skrifræði í innflytjendamálum.
Til þess að hægt sé að ná þessum málum í gegn ásamt öðrum mikilvægum málum er nauðsynlegt, að mati Merz, að þingið starfi lengur en vanalega yfir sumartímann.
Efasemdir eru uppi í Þýskalandi um þá ríkisstjórn sem brátt tekur við völdum. Fylgi bæði jafnaðarmanna og kristilegra demókrata hefur fallið í skoðanakönnunum. Hægri flokkurinn AfD hefur sótt verulega á í skoðanakönnunum og mælist nú með jafn mikið fylgi og kristilegir demókratar.
Merz segist fullmeðvitaður um það að efasemdaraddir heyrist víða. Hann segir að margt þurfi að gera til þess að hægt sé að sannfæra þjóðina um ágæti ríkisstjórnarinnar.