Bandarískum hermönnum í Sýrlandi mun fækka um helming, eða um þúsund, á næstu mánuðum.
Bandaríska varnarmálaráðuneytið greindi frá þessu í dag.
Bandaríski herinn hefur haft viðveru í ríkinu í mörg ár til þess að berjast gegn Ríki íslams eftir borgarastríðið í Sýrlandi fyrir rúmum áratug.
Hryðjuverkasamtökin náðu tökum á stórum landsvæðum í Sýrlandi og nágrannaríkinu Írak í kjölfar borgarastríðsins. Ógn stafar enn af samtökunum.
„Í dag ákvað varnarmálaráðherra að þétta raðir bandaríska hersins í Sýrlandi á nokkur svæði,“ sagði Sean Parnell, talsmaður ráðuneytisins, í tilkynningu. Hann tók ekki fram hvar herstöðvarnar yrðu.
Í tilkynningunni sagði að hermennirnir yrðu færri en þúsund á komandi mánuðum.
Þá sagði að aðgerðirnar væru í samræmi við stefnu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um frið í gegnum styrk og að herinn myndi áfram gera árásir á það sem eftir er af Íslamska ríkinu.
Þúsundir bandarískra hermanna voru sendir til Sýrlands eftir uppgang hryðjuverkasamtakanna.
Árið 2017 lýsti íraski forsætisráðherrann yfir sigri á samtökunum. Hernaðararmur Kúrda lýsti síðan yfir ósigri samtakanna árið 2019 eftir að hafa náð yfirráðum yfir síðasta vígi þeirra í Sýrlandi.
Vígamenn Íslamska ríkisins eru þó enn að störfum í sveitum beggja landa. Bandarískar hersveitir hafa gert reglubundnar árásir til þess að koma í veg fyrir að samtökin styrkist á ný.