Lögreglan í Pakistan hefur handtekið um 40 manns í kjölfar óeirða fyrir utan matsölustaði KFC í landinu. Einn hefur látið lífið í óeirðunum.
BBC greinir frá því að mótmælendurnir séu hliðhollir Palestínumönnum. Þeir krefjast sniðgöngu KFC þar sem þeir telja skyndibitakeðjuna vera táknmynd Bandaríkjanna og bandalagsþjóðar þeirra, Ísrael.
Myndskeið á samfélagsmiðlum sýna mótmælendur vopnaða járnstöngum fara inn á matsölustaðina og hóta að kveikja í. Svo varð raunin á tveimur stöðum í borginni Karachi.
Sá sem lést var 45 ára gamall starfsmaður KFC. Hann var skotinn í óeirðum í borginni Sheikupura fyrir nokkrum dögum.
Að sögn lögreglu var maðurinn að störfum í eldhúsi KFC er hann var skotinn í öxlina.
Árásarmaðurinn hefur ekki verið handtekinn.