Árásarmaðurinn sem myrti tvo og særði sex til viðbótar í Ríkisháskóla Flórída þekkti ekki fórnarlömbin.
BBC greinir frá því að ástæða árásarinnar sé enn óljós.
Hinn tvítugi Phoenix Ikner hóf skotárás nærri byggingu nemendafélags háskólans á hádegi í gær.
Byssan var í eigu fyrrverandi lögreglukonu og stjúpmóður hans, Jessicu Ikner.
„Á þessum tímapunkti virðast ekki vera nein tengsl milli árásarmannsins og fórnarlambanna,“ sagði í tilkynningu lögreglunnar.
Annar hinna látnu var hinn 45 ára gamli Tiru Chabba. Hann var tveggja barna faðir og starfsmaður matvælafyrirtækisins Aramark. Chabba var að störfum á háskólasvæðinu er árásin var gerð.
Hitt fórnarlambið var Robert Morales. Hann starfaði í mötuneyti háskólans.
Ástand hinna særðu er stöðugt. Einn særðist alvarlega.
Ikner var skotinn af lögreglu og dvelur nú á sjúkrahúsi. Að sögn lögreglu bíður hans langt bataferli.
CNN greinir frá því að stjúpmóðir hans hafi starfað fyrir lögregluna í 18 ár og verið fyrirmyndarstarfsmaður.
Vopnið sem Ikner var með var byssa sem Jessica hafði keypt af lögreglunni og var því í einkaeigu. Þá fannst AR-15 riffill og haglabyssa í bílnum sem Ikner keyrði á háskólasvæðið. Bíllinn var í eigu föður hans.
Ikner var nemi í stjórnmálafræði í háskólanum.
Ikner var nefndur Christian Gunnar Eriksen af foreldrum sínum, en móðir hans er með norskan og bandarískan ríkisborgararétt. Þau skildu er hann var þriggja ára og deildu foreldrar hans um forræði yfir syninum í mörg ár.
Árið 2015 fór móðir hans með hann til Noregs gegn vitund föður hans.
Hún var dæmd í 200 daga fangelsi í kjölfarið og mátti ekki vera í samskiptum við son sinn á þeim tíma.
Ikner breytti í kjölfarið nafni sínu í Pheonix Ikner, en hann er líkt og móðir hans bæði með bandarískan og norskan ríkisborgararétt.