Donald Trump Bandaríkjaforseti virtist draga úr yfirlýsingum Marco Rubio utanríkisráðherra frá því fyrr í dag þegar hann ræddi við blaðamenn í Hvíta húsinu.
Rubio sagði að Bandaríkin myndu gefast upp á að semja um frið á milli Úkraínu og Rússlands nema skýr merki sæjust um að vopnahlé gæti náðst.
Trump sagði við fjölmiðla að Rubio hefði rétt fyrir sér, en var jákvæðari um að samningar um vopnahlé næðust.
Spurður út í hversu mikinn tíma Bandaríkjamenn gæfu viðræðunum sagði Trump: „Enginn ákveðinn dagafjöldi, en fljótlega, við viljum klára þetta.“
Þá sagði Trump að ef Úkraínumenn eða Rússar standi enn frekar í vegi fyrir að samkomulag náist þá munu Bandaríkjamenn segja: „Þið eruð heimsk, þið eruð heimsk. Þið eruð hræðilegt fólk, og við verðum bara að draga okkur til hlés. En vonandi þurfum við ekki að gera það.“
Trump neitaði að svara hvort Bandaríkin myndu algjörlega segja sig frá viðræðunum eða hvort Bandaríkin myndu styðja Úkraínumenn ef viðræður slitna.
Spurður hvað þyrfti að gerast til þess að Bandaríkin haldi áfram þátttöku í viðræðum sagðist Trump vilja sjá „vilja til þess að ljúka þessu“ frá báðum ríkjum. Forsetinn sagðist gera ráð fyrir að fá svar við þeirri spurningu bráðum.
Í gær undirrituðu Bandaríkin og Úkraínumenn viljayfirlýsingu um að ríkin vildu stofna fjárfestingasjóð um endurbyggingu Úkraínu, sem er hluti af efnahagssamkomulagi landanna.