Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur skipað Trump-stjórninni að stöðva tímabundið brottvísanir á meintum venesúelskum glæpamönnum.
Réttindasamtök stefndu ríkisstjórn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta eftir að hún vísaði til lagasetningar frá 1798 með það fyrir stafni að vísa meintum liðsmönnum venesúelska glæpagengisins Tren de Aragua (TdA) úr landi.
Í morgun skipaði hæstiréttur landsins ríkisstjórninni að vísa ekki fleirum úr landi þar til dómurinn hefur gefið frekari fyrirmæli.
Lagagreinin sem Trump studdist við kveður á um að þegar Bandaríkin eru í stríði eða að verjast innrás megi yfirvöld handsama og senda úr landi án málsmeðferðar alla borgara „óvinaþjóðarinnar“ sem hafa náð 14 ára aldri. Sagði Trump Venesúelamennina ógna Bandaríkjamönnum.
Trump hefur sent 261 venesúelskan mann í fangelsi í El Salvador á síðasta rúma mánuði, þar af 137 með vísan til lagagreinarinnar.
Útspilið hefur valdið miklum usla í Bandaríkjunum, sem og margt annað sem Trump hefur gert síðan annað kjörtímabil hans hófst á ný.
Brottvísanirnar höfðu verið hindraðar á lægra dómstigi um miðjan mars en Hæstiréttur skar svo úr í byrjun apríl að hann mætti nýta sér lagagreinina til að vísa brott meintum glæpamönnum með vísan til lagagreinarinnar en áréttaði að þeir ættu rétt á að kæra brottvísunina.
Lögsóknin sem leiddi til ákvörðunar dómstólsins í dag varðar Venesúelamenn sem sagðir eru hafa verið teknir í hald í Texasríki og upplýstir um brottvísun sína á ensku, þó einn þeirra hafi aðeins talað spænsku.
American Civil Liberties Union, sem eru stefnendur í málinu, segja enn fremur að mönnunum hafi ekki verið sagt að þeir hefðu rétt á að kæra brottvísunina.