Skortur á pistasíum vegna Dúbaí-súkkulaðsins

Pistasíuhnetur eru að mestu ræktaðar í Bandaríkjunum og Íran.
Pistasíuhnetur eru að mestu ræktaðar í Bandaríkjunum og Íran. AFP

Hið vin­sæla Dúbaí-súkkulaði hef­ur leitt til skorts á pist­asíu­hnet­um sem eru að mestu ræktaðar í Banda­ríkj­un­um og Íran. 

Súkkulaðið fór sem eld­ur í sinu á miðlin­um TikT­ok á síðasta ári. Það hef­ur leitt til þess að á rúmu ári hef­ur um hálft kíló af hnet­un­um farið úr 7,65 doll­ur­um í 10,30 doll­ara. 

The Guar­di­an grein­ir frá því að pist­asíu­hnet­ur séu nú þegar að verða af skorn­um skammti eft­ir lé­lega upp­skeru í Banda­ríkj­un­um. 

Íransk­ir fram­leiðend­ur hafa flutt um 40% meira af hnet­um til Sam­einuðu ar­ab­ísku fursta­dæm­anna á síðustu sex mánuðum en á 12 mánuðunum fyr­ir það. 

Allt í einu á hverju götu­horni

Dúbaí-súkkulaðið er mjólk­ursúkkulaði með rifnu ar­ab­ísku sæta­brauði inni í, sem nefn­ist kataifi, og pist­asíu­fyll­ingu. 

Það var upp­runa­lega fram­leitt af súkkulaðifyr­ir­tæk­inu Fix í Dúbaí í Sam­einuðu ar­ab­ísku fursta­dæmun­um.

Eft­ir vin­sæld­ir þess byrjuðu súkkulaðifram­leiðend­ur líkt og Laderach og Lindt að selja eig­in gerð af súkkulaðinu. Þeir eiga hins veg­ar í vand­ræðum með að anna eft­ir­spurn. 

Char­les Jandreau, fram­kvæmda­stjóri Prestat Group, sem á nokk­ur bresk súkkulaðivörumerki, sagði að eft­ir­spurn eft­ir pist­asíusúkkulaðinu hafi komið markaðinum að óvör­um. 

„Manni finnst eins og þetta hafi sprottið upp úr þurru. Allt í einu sér maður það á hverju götu­horni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert