Hið vinsæla Dúbaí-súkkulaði hefur leitt til skorts á pistasíuhnetum sem eru að mestu ræktaðar í Bandaríkjunum og Íran.
Súkkulaðið fór sem eldur í sinu á miðlinum TikTok á síðasta ári. Það hefur leitt til þess að á rúmu ári hefur um hálft kíló af hnetunum farið úr 7,65 dollurum í 10,30 dollara.
The Guardian greinir frá því að pistasíuhnetur séu nú þegar að verða af skornum skammti eftir lélega uppskeru í Bandaríkjunum.
Íranskir framleiðendur hafa flutt um 40% meira af hnetum til Sameinuðu arabísku furstadæmanna á síðustu sex mánuðum en á 12 mánuðunum fyrir það.
Dúbaí-súkkulaðið er mjólkursúkkulaði með rifnu arabísku sætabrauði inni í, sem nefnist kataifi, og pistasíufyllingu.
Það var upprunalega framleitt af súkkulaðifyrirtækinu Fix í Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Eftir vinsældir þess byrjuðu súkkulaðiframleiðendur líkt og Laderach og Lindt að selja eigin gerð af súkkulaðinu. Þeir eiga hins vegar í vandræðum með að anna eftirspurn.
Charles Jandreau, framkvæmdastjóri Prestat Group, sem á nokkur bresk súkkulaðivörumerki, sagði að eftirspurn eftir pistasíusúkkulaðinu hafi komið markaðinum að óvörum.
„Manni finnst eins og þetta hafi sprottið upp úr þurru. Allt í einu sér maður það á hverju götuhorni.“