Æstur múgur í Ekvador er sagður hafa brotist inn á lögreglustöð, tekið þaðan breskan fanga og brennt hann lifandi. Bretinn var í haldi sakaður um að hafa myrt heimamann nokkrum klukkustundum áður.
Breska dagblaðið Telegraph greinir frá.
Telegraph hefur eftir ekvadorska fjölmiðlinum Ecuavisa að morðið hafi átt sér stað í gær á Cuyabeno-náttúruverndarsvæðinu við Amazon-regnskóginn.
Bretinn er ekki nafngreindur en fóru almennir borgarar með hann á lögreglustöðina fyrr um morguninn og sökuðu hann um að hafa skotið heimamann til bana.
Þegar flytja átti manninn annað þá braust múgurinn inn á lögreglustöðina en lögreglumennirnir þorðu ekki að stöðva múginn þar sem þeir óttuðust sjálfir að verða fyrir árás, að því er kemur fram í ekvadorska dagblaðinu Extra.
Blaðið bætti við að það hefði tekið tíma fyrir liðsauka lögreglu að komast á svæðið, þar sem það er afskekkt og illa aðgengilegt.
Maðurinn var brenndur lifandi af múgnum. Ekki liggur fyrir hvort einhver hafi verið handtekinn í kjölfarið.