Frans páfi lést í morgun, 88 ára að aldri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vatíkaninu.
„Kæru bræður og systur. Með mikilli sorg verð ég að tilkynna andlát heilags föður okkar Frans,“ sagði kardínálinn Kevin Farrell í yfirlýsingunni sem Vatíkanið birti á Telegram-rás sinni.
„Í morgun klukkan 7.35 [5.35 að íslenskum tíma] sneri Frans biskup Rómar aftur í hús föðurins,“ sagði Farrell.
Frans páfi fordæmdi vaxandi gyðingahatur í heiminum sem og hræðilegt mannúðarástand á Gasa í páskaávarpi sínu í gær.
Ekki var ljóst hvort hann myndi láta sjá sig flytja hið árlega ávarp í ár í ljósi heilsufars hans en hann kom fram á Péturstorgi fyrir framan tugþúsundir manna.
Aftur á móti las hann sjálfur ekki upp ávarpið en óskaði öllum gleðilegra páska með veikri röddu
Frans dvaldi í 38 daga á sjúkrahúsi í vetur vegna lungnabólgu en hann var útskrifaður þaðan 23. mars.
Frans páfi var fæddur Jorge Bergoglio og var kardínáli frá Argentínu þegar hann var kosinn páfi kaþólsku kirkjunnar 13. mars 2013 og tók hann sér þá nafnið Frans.
Tók hann þá við embættinu af Benedikt XVI. páfa, sem lýsti því óvænt yfir 11. febrúar sama ár að hann ætlaði að láta af embætti.
Frans er eini páfinn sem hefur komið frá S-Ameríku. Hann var erkibiskup í Buenos Aires í Argentínu frá 1998. Hann varð kardínáli árið 2001.
Var hann af ítölskum ættum, en faðir hans flutti frá Ítalíu til Argentínu snemma á síðustu öld.
Frans var einn af þeim sem komu sterklega til greina sem eftirmaður Jóhannesar Páls II. árið 2005. Þá var Joseph Ratzinger fyrir valinu.
Fréttin hefur verið uppfærð.