Hinn ástkæri flugvöllur Kaupmannahafnarbúa, Kastrup, átti 100 ára afmæli um páskana, en í gær, 20. apríl, var öld liðin síðan flugstöðvarbygging úr tré á Amager opnaði dyr sínar og Kaupmannahafnarbúar mættu spariklæddir af lotningu yfir að danska höfuðborgin ætti orðið eigin flugvöll.
Margt hefur eðlilega breyst síðan á þriðja áratug síðustu aldar þegar nær einungis var flogið að sumarlagi og eingöngu í góðu veðri.
Kastrup er einn af stærstu vinnustöðum Danmerkur og bendir Christian Poulsen stjórnarformaður á að þau séu orðin mörg, tímamótin og viðburðirnir, sem líta megi til baka til. Á síðari tímum séu þó mismunandi krísur teknar að setja mark sitt á sögu vallarins umfram annað og nefnir Poulsen heimsfaraldur kórónuveiru þar sérstaklega.
„Við stóðum í faraldrinum miðjum og þá gilti bara að lifa af. Við stóðum frammi fyrir því að reka fyrirtæki sem við vissum ekki hvort næði sér á strik á ný,“ segir stjórnarformaðurinn við danska ríkisútvarpið DR.
Þá eru loftslagsmál á síðustu tímum orðin snar þáttur í flugrekstri. Sú var tíðin að sauðfé gekk sjálfala umhverfis völlinn og jafnvel á honum – smala þurfti fé út af flugbrautinni er lending eða brottför stóð fyrir dyrum. Nú orðið á guðsgræn náttúran hins vegar undir högg að sækja. Á það bendir Helene Dyrhauge, lektor við Hróarskelduháskóla og rannsakandi þar á sviði loftslags- og samgöngumála.
„Flugvöllurinn nærist á því að vaxa sem er klárlega hverju fyrirtæki gott,“ segir Dyrhauge, „en það er loftslaginu ekki hollt.“ Og ferðagleðin er ekki ókeypis bendir DR á, hvert mannsbarn í Danmörku skilji eftir sig um hálft tonn af losunarefnum ár hvert og vísar ríkisútvarpið þar til skýrslu sem Samtök atvinnulífsins í Danmörku unnu að beiðni þess.
Stjórnendur Kastrup spá því að á þessu ári, 2025, muni farþegum þeim, er um Kastrup-flugvöll fara, fjölga um tvær milljónir, úr 30 í 32 milljónir, og veltuaukning vallarins samhliða því verði um átta prósent.
„Ekki ná öll fyrirtæki 100 ára aldri,“ bendir Poulsen stjórnarformaður á og kveður reksturinn einkennast af síbreytilegum áskorunum. „Við höldum inn í afmælisárið á traustum grunni sem samanstendur af heilbrigðum fjárhag, spennandi þróunaráætlunum og metnaðarfullum takmörkum fyrir skiptin inn í grænu orkuna,“ segir hann.
Rekstur Kastrup hefur nú náð sér á strik á ný eftir heimsfaraldurinn, á tímum þegar flugvélar eru ekki lengur lúxusferðamáti hinna vel stæðu heldur nánast fleygir strætisvagnar háloftanna. Dyrhauge lektor játar þetta fúslega þrátt fyrir loftslagssjónarmið.
„Maður vill ekki takmarka færanleika sinn. Sérstaklega ekki þegar við ætlum okkur að gera eitthvað í fríinu og slaka á,“ segir hún á aldarafmæli Kastrup, flugvallar sem líkast til er flestum Íslendingum kunnur af öllum flugvöllum utan landsteinanna.