Kastrup-flugvöllur aldargamall

„Træslottet“ eða „Timburhöllin“ var viðurnefnið sem Kaupmannahafnarbúar skreyttu fyrstu flugvallarbygginguna …
„Træslottet“ eða „Timburhöllin“ var viðurnefnið sem Kaupmannahafnarbúar skreyttu fyrstu flugvallarbygginguna á Kastrup með sem opnaði dyr sínar 20. apríl 1925. Ljósmynd/Kastrup-flugvöllur

Hinn ástkæri flug­völl­ur Kaup­manna­hafn­ar­búa, Kast­rup, átti 100 ára af­mæli um pásk­ana, en í gær, 20. apríl, var öld liðin síðan flug­stöðvar­bygg­ing úr tré á Ama­ger opnaði dyr sín­ar og Kaup­manna­hafn­ar­bú­ar mættu spari­klædd­ir af lotn­ingu yfir að danska höfuðborg­in ætti orðið eig­in flug­völl.

Margt hef­ur eðli­lega breyst síðan á þriðja ára­tug síðustu ald­ar þegar nær ein­ung­is var flogið að sum­ar­lagi og ein­göngu í góðu veðri.

Kast­rup er einn af stærstu vinnu­stöðum Dan­merk­ur og bend­ir Christian Poul­sen stjórn­ar­formaður á að þau séu orðin mörg, tíma­mót­in og viðburðirn­ir, sem líta megi til baka til. Á síðari tím­um séu þó mis­mun­andi krís­ur tekn­ar að setja mark sitt á sögu vall­ar­ins um­fram annað og nefn­ir Poul­sen heims­far­ald­ur kór­ónu­veiru þar sér­stak­lega.

„Við stóðum í far­aldr­in­um miðjum og þá gilti bara að lifa af. Við stóðum frammi fyr­ir því að reka fyr­ir­tæki sem við viss­um ekki hvort næði sér á strik á ný,“ seg­ir stjórn­ar­formaður­inn við danska rík­is­út­varpið DR.

Ferðagleðin ekki ókeyp­is

Þá eru lofts­lags­mál á síðustu tím­um orðin snar þátt­ur í flugrekstri. Sú var tíðin að sauðfé gekk sjálf­ala um­hverf­is völl­inn og jafn­vel á hon­um – smala þurfti fé út af flug­braut­inni er lend­ing eða brott­för stóð fyr­ir dyr­um. Nú orðið á guðsgræn nátt­úr­an hins veg­ar und­ir högg að sækja. Á það bend­ir Helene Dyr­hauge, lektor við Hró­arskeldu­há­skóla og rann­sak­andi þar á sviði lofts­lags- og sam­göngu­mála.

„Airbus“ fjórða áratugarins. Myndin er tekin á Kastrup skömmu fyrir …
„Air­bus“ fjórða ára­tug­ar­ins. Mynd­in er tek­in á Kast­rup skömmu fyr­ir síðari heims­styrj­öld­ina. Hafði eft­ir­spurn­in þá þegar tekið kipp þótt styrj­öld­in setti síðar strik í reikn­ing­inn, en sam­kvæmt stjórn­ar­for­manni vall­ar­ins hafa ýms­ir nei­kvæðir at­b­urðir og kreppu­ástand sett svip sinn á rekst­ur­inn. Sé bara litið til síðustu ára má þar fyrst nefna kór­ónu­veiruna og fyr­ir hart­nær tveim­ur ára­tug­um setti banka­hrunið mark sitt á heims­byggðina. Ljós­mynd/​Kast­rup-flug­völl­ur

„Flug­völl­ur­inn nær­ist á því að vaxa sem er klár­lega hverju fyr­ir­tæki gott,“ seg­ir Dyr­hauge, „en það er lofts­lag­inu ekki hollt.“ Og ferðagleðin er ekki ókeyp­is bend­ir DR á, hvert manns­barn í Dan­mörku skilji eft­ir sig um hálft tonn af los­un­ar­efn­um ár hvert og vís­ar rík­is­út­varpið þar til skýrslu sem Sam­tök at­vinnu­lífs­ins í Dan­mörku unnu að beiðni þess.

Stjórn­end­ur Kast­rup spá því að á þessu ári, 2025, muni farþegum þeim, er um Kast­rup-flug­völl fara, fjölga um tvær millj­ón­ir, úr 30 í 32 millj­ón­ir, og veltu­aukn­ing vall­ar­ins sam­hliða því verði um átta pró­sent.

Rétt úr kútn­um eft­ir far­ald­ur

„Ekki ná öll fyr­ir­tæki 100 ára aldri,“ bend­ir Poul­sen stjórn­ar­formaður á og kveður rekst­ur­inn ein­kenn­ast af sí­breyti­leg­um áskor­un­um. „Við höld­um inn í af­mælis­árið á traust­um grunni sem sam­an­stend­ur af heil­brigðum fjár­hag, spenn­andi þró­un­ar­áætl­un­um og metnaðarfull­um tak­mörk­um fyr­ir skipt­in inn í grænu ork­una,“ seg­ir hann.

Rekst­ur Kast­rup hef­ur nú náð sér á strik á ný eft­ir heims­far­ald­ur­inn, á tím­um þegar flug­vél­ar eru ekki leng­ur lúx­us­ferðamáti hinna vel stæðu held­ur nán­ast fleyg­ir stræt­is­vagn­ar háloft­anna. Dyr­hauge lektor ját­ar þetta fús­lega þrátt fyr­ir lofts­lags­sjón­ar­mið.

„Maður vill ekki tak­marka fær­an­leika sinn. Sér­stak­lega ekki þegar við ætl­um okk­ur að gera eitt­hvað í frí­inu og slaka á,“ seg­ir hún á ald­araf­mæli Kast­rup, flug­vall­ar sem lík­ast til er flest­um Íslend­ing­um kunn­ur af öll­um flug­völl­um utan land­stein­anna.

DR

Heimasíða Kast­rup (mynd­ir, mynd­skeið og fleira)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert