Einn hinn þekktasti ræningjanna ellefu, sem frömdu NOKAS-ránið í Stavanger klukkan átta að morgni mánudagsins 5. apríl 2004 undir stjórn David Toska, Metkel Betew, fannst skotinn til bana að kvöldi skírdags í Godliaskogen í Oppsal-hverfinu í Ósló og er maður sem norskir fjölmiðlar kalla hættulegasta mann Noregs, Stig Millehaugen, grunaður um verknaðinn.
Fjallað var ítarlega um NOKAS-ránið þann dag er fimmtán ár voru liðin frá því vorið 2019.
Var Millehaugen í dagsleyfi úr afplánun 21 árs dóms við Berg-fangelsið í Tønsberg, en dóminn hlaut hann árið 2012 fyrir að myrða leiðtoga glæpaklíkunnar Young Guns, Mohammad „Jeddi“ Javed, eftir pöntun snemmárs 2009.
Bjó Millehaugen þá á áfangaheimili og var á reynslulausn eftir að hafa afplánað sautján ára dóm fyrir að skjóta fangavörð í fangelsinu í Sarpsborg til bana árið 1992 í kjölfar þess er skammbyssu var laumað til hans inn um klefaglugga hans.
Millehaugen tilheyrði hinni alræmdu Tveita-klíku, sem réð lögum og lofum í samnefndu hverfi í Ósló á níunda áratugnum, og hafði við 23 ára aldur hlotið 70 refsidóma. Fjórum sinnum hefur hann flúið úr fangelsi í kjölfar ótal dóma, meðal annars fyrir hið fræga pósthúsrán í Klemetsrud í Ósló í desember 1990.
Metkel Betew, sem nú fannst myrtur, var 46 ára gamall og af töluvert öðru sauðahúsi en sá sem grunaður er um að stytta honum aldur. Betew náði þeim einstaka árangri í samskiptum sínum við norskt réttarvörslukerfi að sitja í fangelsi í Noregi meira en hálfa ævina. Hann hlaut 16 ára dóm fyrir NOKAS-ránið og var hleypt út á reynslulausn.
Betew, sem var hvers manns hugljúfi, brosmildur og einstaklega vinamargur í þeim fjölmörgu fangelsum Noregs sem hann gisti um sína daga, leiddist nánast samstundis á ný út á brautina breiðu til glötunar og var í ágúst 2015 ákærður fyrir fjölda brota, meðal annars að hafa lagt á ráðin um að myrða pakistanska undirheimaforingjann Imran Saber, öðru nafni „Jóakim aðalönd“, „fjármálaráðherrann“ og fleira.
Það var svo í fyrra sem Betew var látinn laus eftir að hafa setið nánast 20 ár óslitið í fangelsi.
Lögreglan í Ósló lýsir vígi Betews sem „hrottalegu og hnitmiðuðu“, en norska Dagbladet kveðst hafa heimildir fyrir því að þeir Millehaugen hefðu átt nokkra fundi áður og mætti Betew örlögum sínum á þeim síðasta. Er lögreglu ekki kunnugt um hvað þeim síbrotamönnunum fór á milli á fundum þessum né um hvað þeir snerust.
Var Millehaugen handtekinn í íbúð í Ósló á páskadag, í gær, og lét verjandi hans til áratuga, Morten Furuholmen, það uppi við norsku sjónvarpsstöðina TV2 að skjólstæðingur hans neitaði að tjá sig við yfirheyrslur. Það myndi hann aðeins gera við gæsluvarðhaldsþinghald fyrir Héraðsdómi Óslóar á morgun, þriðjudag.