Myrti mann í dagsleyfinu

Stig Millehaugen á flótta úr fangelsinu í Þrándheimi árið 2022 …
Stig Millehaugen á flótta úr fangelsinu í Þrándheimi árið 2022 sem er einn fjögurra fangelsisflótta hans á löngum afbrotaferli. Hann er nú grunaður um að hafa myrt NOKAS-ræningjann Metkel Betew í dagsleyfi úr Berg-fangelsinu í Tønsberg að kvöldi skírdags. Ljósmynd/Norska lögreglan

Einn hinn þekkt­asti ræn­ingj­anna ell­efu, sem frömdu NOKAS-ránið í Stavan­ger klukk­an átta að morgni mánu­dags­ins 5. apríl 2004 und­ir stjórn Dav­id Toska, Met­kel Betew, fannst skot­inn til bana að kvöldi skír­dags í God­li­a­sko­gen í Opp­sal-hverf­inu í Ósló og er maður sem norsk­ir fjöl­miðlar kalla hættu­leg­asta mann Nor­egs, Stig Millehaugen, grunaður um verknaðinn.

Fjallað var ít­ar­lega um NOKAS-ránið þann dag er fimmtán ár voru liðin frá því vorið 2019.

Var Millehaugen í dags­leyfi úr afplán­un 21 árs dóms við Berg-fang­elsið í Tøns­berg, en dóm­inn hlaut hann árið 2012 fyr­ir að myrða leiðtoga glæpaklík­unn­ar Young Guns, Mohammad „Jeddi“ Javed, eft­ir pönt­un snemmárs 2009.

Bjó Millehaugen þá á áfanga­heim­ili og var á reynslu­lausn eft­ir að hafa afplánað sautján ára dóm fyr­ir að skjóta fanga­vörð í fang­els­inu í Sarps­borg til bana árið 1992 í kjöl­far þess er skamm­byssu var laumað til hans inn um klefa­glugga hans.

Metkel Betew, sem sat í fangelsi meira en hálfa ævi …
Met­kel Betew, sem sat í fang­elsi meira en hálfa ævi sína, meðal ann­ars fyr­ir hið ann­álaða NOKAS-rán í Stavan­ger vorið 2004, var myrt­ur á skír­dag og ber­ast bönd­in að Stig Millehaugen. Ljós­mynd/​Norska lög­regl­an

Framdi póst­hús­ránið í Klemetsrud

Millehaugen til­heyrði hinni al­ræmdu Tveita-klíku, sem réð lög­um og lof­um í sam­nefndu hverfi í Ósló á ní­unda ára­tugn­um, og hafði við 23 ára ald­ur hlotið 70 refsi­dóma. Fjór­um sinn­um hef­ur hann flúið úr fang­elsi í kjöl­far ótal dóma, meðal ann­ars fyr­ir hið fræga póst­hús­rán í Klemetsrud í Ósló í des­em­ber 1990.

Met­kel Betew, sem nú fannst myrt­ur, var 46 ára gam­all og af tölu­vert öðru sauðahúsi en sá sem grunaður er um að stytta hon­um ald­ur. Betew náði þeim ein­staka ár­angri í sam­skipt­um sín­um við norskt rétt­ar­vörslu­kerfi að sitja í fang­elsi í Nor­egi meira en hálfa æv­ina. Hann hlaut 16 ára dóm fyr­ir NOKAS-ránið og var hleypt út á reynslu­lausn.

Betew, sem var hvers manns hug­ljúfi, bros­mild­ur og ein­stak­lega vina­marg­ur í þeim fjöl­mörgu fang­els­um Nor­egs sem hann gisti um sína daga, leidd­ist nán­ast sam­stund­is á ný út á braut­ina breiðu til glöt­un­ar og var í ág­úst 2015 ákærður fyr­ir fjölda brota, meðal ann­ars að hafa lagt á ráðin um að myrða pak­ist­anska und­ir­heima­for­ingj­ann Imr­an Sa­ber, öðru nafni „Jóakim aðalönd“, „fjár­málaráðherr­ann“ og fleira.

Það var svo í fyrra sem Betew var lát­inn laus eft­ir að hafa setið nán­ast 20 ár óslitið í fang­elsi.

Hrotta­legt og hnit­miðað

Lög­regl­an í Ósló lýs­ir vígi Betews sem „hrotta­legu og hnit­miðuðu“, en norska Dag­bla­det kveðst hafa heim­ild­ir fyr­ir því að þeir Millehaugen hefðu átt nokkra fundi áður og mætti Betew ör­lög­um sín­um á þeim síðasta. Er lög­reglu ekki kunn­ugt um hvað þeim sí­brota­mönn­un­um fór á milli á fund­um þess­um né um hvað þeir sner­ust.

Var Millehaugen hand­tek­inn í íbúð í Ósló á páska­dag, í gær, og lét verj­andi hans til ára­tuga, Morten Furu­hol­men, það uppi við norsku sjón­varps­stöðina TV2 að skjól­stæðing­ur hans neitaði að tjá sig við yf­ir­heyrsl­ur. Það myndi hann aðeins gera við gæslu­v­arðhaldsþing­hald fyr­ir Héraðsdómi Ósló­ar á morg­un, þriðju­dag.

NRK

TV2

VG

Dag­bla­det

Af­ten­posten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert