Segja skýrslu Ísraelshers „fulla af lygum“

Myndin er tekin úr myndbandi á síma eins bráðaliðans sem …
Myndin er tekin úr myndbandi á síma eins bráðaliðans sem var drepinn í árásinni. AFP/Palestínski rauði hálfmáninn

Palestínski Rauði hálf­mán­inn for­dæm­ir skýrslu Ísra­els­hers um mann­skæða árás á sjúkra­flutn­inga­menn á Gasa og seg­ir hana „fulla af lyg­um“.

Ísra­els­her gaf út skýrslu í gær þar sem her­inn seg­ir að um mis­tök hafi verið að ræða er árás­in var gerð.

Breska rík­is­út­varpið grein­ir frá. 

Árás­in hafi verið fag­leg mis­tök

Í skýrslu Ísra­els­hers er full­yrt að um hafi verið að ræða „fag­leg mis­tök“ er árás­in var gerð þann 23. mars. Í henni lét­ust 15 manns, þar af 14 starfs­menn Rauða hálf­mán­ans og einn starfsmaður Sam­einuðu þjóðanna.

Greint var þá frá að aðstoðar­yf­irmaður þeirr­ar deild­ar sem fram­kvæmdi árás­ina hefði verið rek­inn.

Skort­ur á ábyrgð grafi und­an alþjóðalög­um

Rauði hálf­mán­inn hafn­ar niður­stöðum skýrsl­unn­ar og seg­ir hana reyna að rétt­læta árás­ina með því að varpa allri ábyrgð á einn yf­ir­mann á vett­vangi.

Sam­tök­in, ásamt Sam­einuðu þjóðunum og fleiri alþjóðastofn­un­um, hafa kallað eft­ir óháðri rann­sókn á árás­inni.

Yf­ir­maður mannúðardeild­ar Sam­einuðu þjóðanna á Gasa­svæðinu hef­ur einnig gagn­rýnt skýrsl­una og full­yrðir að hún gangi ekki nógu langt. Hann seg­ir að skort­ur á raun­veru­legri ábyrgð grafi und­an alþjóðalög­um og auki lík­urn­ar á frek­ari grimmd­ar­verk­um.

Staðhæf­ing­ar án sann­anna

Í skýrslu Ísra­els­hers seg­ir að árás­in hafi átt sér stað á hættu­legu átaka­svæði og að yf­ir­maður á vett­vangi hafi talið bíla­flot­ann vera ógn­andi vegna þess hve hratt hann nálgaðist. Einnig kem­ur fram að sex af hinum látnu hafi verið liðsmenn hryðju­verka­sam­tak­anna Ham­as, þó eng­in sönn­un­ar­gögn séu lögð fram sem styðja þá full­yrðingu, þrátt fyr­ir að nöfn hinna látnu hafi verið op­in­beruð.

Upp­haf­lega sagði Ísra­els­her að árás­in hefði átt sér stað í myrkri og að lé­legt skyggni hefði gert það að verk­um að ekki var greint að um sjúkra­bíla væri að ræða. Her­inn taldi einnig að bíla­flot­inn hefði ekki verið skráður eða samþykkt­ur til ferðar­inn­ar af hern­um.

Þess­ar skýr­ing­ar voru síðar dregn­ar til baka eft­ir að mynd­band fannst í síma bráðaliða sem lést í árás­inni. Mynd­bandið sýn­ir bíl­ana með neyðarljós­in kveikt, greini­lega merkta sem sjúkra­flutn­inga­bíla og starfs­fólk í áber­andi ör­ygg­is­fatnaði.

Lík bráðaliðanna voru graf­in í sand og fund­ust ekki fyrr en viku síðar, þar sem alþjóðastofn­an­ir, þar á meðal Sam­einuðu þjóðirn­ar, gátu ekki tryggt ör­ugg­an aðgang að svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert