Palestínski Rauði hálfmáninn fordæmir skýrslu Ísraelshers um mannskæða árás á sjúkraflutningamenn á Gasa og segir hana „fulla af lygum“.
Ísraelsher gaf út skýrslu í gær þar sem herinn segir að um mistök hafi verið að ræða er árásin var gerð.
Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Í skýrslu Ísraelshers er fullyrt að um hafi verið að ræða „fagleg mistök“ er árásin var gerð þann 23. mars. Í henni létust 15 manns, þar af 14 starfsmenn Rauða hálfmánans og einn starfsmaður Sameinuðu þjóðanna.
Greint var þá frá að aðstoðaryfirmaður þeirrar deildar sem framkvæmdi árásina hefði verið rekinn.
Rauði hálfmáninn hafnar niðurstöðum skýrslunnar og segir hana reyna að réttlæta árásina með því að varpa allri ábyrgð á einn yfirmann á vettvangi.
Samtökin, ásamt Sameinuðu þjóðunum og fleiri alþjóðastofnunum, hafa kallað eftir óháðri rannsókn á árásinni.
Yfirmaður mannúðardeildar Sameinuðu þjóðanna á Gasasvæðinu hefur einnig gagnrýnt skýrsluna og fullyrðir að hún gangi ekki nógu langt. Hann segir að skortur á raunverulegri ábyrgð grafi undan alþjóðalögum og auki líkurnar á frekari grimmdarverkum.
Í skýrslu Ísraelshers segir að árásin hafi átt sér stað á hættulegu átakasvæði og að yfirmaður á vettvangi hafi talið bílaflotann vera ógnandi vegna þess hve hratt hann nálgaðist. Einnig kemur fram að sex af hinum látnu hafi verið liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Hamas, þó engin sönnunargögn séu lögð fram sem styðja þá fullyrðingu, þrátt fyrir að nöfn hinna látnu hafi verið opinberuð.
Upphaflega sagði Ísraelsher að árásin hefði átt sér stað í myrkri og að lélegt skyggni hefði gert það að verkum að ekki var greint að um sjúkrabíla væri að ræða. Herinn taldi einnig að bílaflotinn hefði ekki verið skráður eða samþykktur til ferðarinnar af hernum.
Þessar skýringar voru síðar dregnar til baka eftir að myndband fannst í síma bráðaliða sem lést í árásinni. Myndbandið sýnir bílana með neyðarljósin kveikt, greinilega merkta sem sjúkraflutningabíla og starfsfólk í áberandi öryggisfatnaði.
Lík bráðaliðanna voru grafin í sand og fundust ekki fyrr en viku síðar, þar sem alþjóðastofnanir, þar á meðal Sameinuðu þjóðirnar, gátu ekki tryggt öruggan aðgang að svæðinu.