Fjölda byssuskota var skotið á aðalinngang fjölbýlishúss í Barkarby í norðurhluta sænsku höfuðborgarinnar Stokkhólms á fjórða tímanum í nótt að sænskum tíma og var tæknideildarfólk lögreglu við rannsóknir sínar á vettvangi langt fram á morgun.
Að sögn Fredriks Anderssons lögregluvarðstjóra er enginn búsettur í húsinu sem lögregla telur að geti talist augljóst skotmark glæpagengja og bætir varðstjórinn því við, í samtali við sænska ríkisútvarpið SVT, að slík tengsl séu alltaf meðal þess sem lögregla kannar í kjölfar árása af þessu tagi.
Leitaði lögregla skotmannsins eða -mannanna daglangt og kannaði stöðu vegfarenda í nágrenni við vettvanginn án þess að sérstakar grunsemdir kviknuðu eða tilefni þætti til handtöku.
Rannsakar lögregla málið nú sem gróft vopnalagabrot, grófa röskun almannareglu, hótanir og skemmdarverk.