Yfir 30 óbreyttir borgarar eru látnir og tugir slasaðir eftir stórskotahríð RSF-sveitanna á El-Fasher, höfuðborg Norður-Darfur-héraðs, í Súdan í gær.
Samkvæmt hjálparsamtökum á svæðinu beindist árásin að íbúðahverfum borgarinnar og fól í sér „þunga stórskotahríð“.
El-Fasher er eina borgin í Darfur-héraði í Súdan sem RSF-sveitirnar hafa ekki náð á sitt vald.
Stríðið í Súdan hefur staðið yfir frá apríl 2023, þegar átök brutust út milli stjórnarhers Súdans og RSF.
Tugir þúsunda hafa fallið, 13 milljónir hafa neyðst til að flýja heimili sín og Sameinuðu þjóðirnar lýsa ástandinu sem verstu mannúðarkreppu heims um þessar mundir.
Í síðustu viku hófu RSF-sveitarnar að nýju árásir á El-Fasher og tvær flóttamannabúðir í grenndinni – Zamzam og Abu Shouk – þar sem yfir 400 létust og um 400.000 þurftu að flýja, samkvæmt upplýsingum Sameinuðu þjóðanna.
Zamzam-búðirnar féllu í hendur RSF eftir blóðuga árás en talið er að þar hafi allt að ein milljón manns haft skjól. Um 150.000 manns flúðu til El-Fasher og 180.000 til bæjarins Tawila. Mannúðaraðstoð er næstum engin á þessum svæðum og hungursneyð vofir yfir.
Tom Fletcher, mannúðarstjóri Sameinuðu þjóðanna, lýsti ástandinu í gær sem „skelfilegu“ og sagði báðar stríðandi fylkingar hafa lofað fullu aðgengi fyrir hjálparsamtök.
Samt sem áður segir Clementine Nkweta-Salami, yfirmaður mannúðarmála Sameinuðu þjóðanna í Súdan, að aðgengi að mannúðaraðstoð í El-Fasher sé enn „hættulega takmarkað“.