Tugir almennra borgara féllu í stórskotahríð

Stríðið í Súdan, oft kallað „hið gleymda stríð“, hófst 15. …
Stríðið í Súdan, oft kallað „hið gleymda stríð“, hófst 15. apríl 2023 og stendur enn af fullum krafti. AFP

Yfir 30 óbreytt­ir borg­ar­ar eru látn­ir og tug­ir slasaðir eft­ir stór­skota­hríð RSF-sveit­anna á El-Fasher, höfuðborg Norður-Darf­ur-héraðs, í Súd­an í gær.

Sam­kvæmt hjálp­ar­sam­tök­um á svæðinu beind­ist árás­in að íbúðahverf­um borg­ar­inn­ar og fól í sér „þunga stór­skota­hríð“.

El-Fasher er eina borg­in í Darf­ur-héraði í Súd­an sem RSF-sveit­irn­ar hafa ekki náð á sitt vald.

Réðust á flótta­manna­búðir

Stríðið í Súd­an hef­ur staðið yfir frá apríl 2023, þegar átök brut­ust út milli stjórn­ar­hers Súd­ans og RSF.

Tug­ir þúsunda hafa fallið, 13 millj­ón­ir hafa neyðst til að flýja heim­ili sín og Sam­einuðu þjóðirn­ar lýsa ástand­inu sem verstu mannúðar­kreppu heims um þess­ar mund­ir.

Í síðustu viku hófu RSF-sveit­arn­ar að nýju árás­ir á El-Fasher og tvær flótta­manna­búðir í grennd­inni – Zamzam og Abu Shouk – þar sem yfir 400 lét­ust og um 400.000 þurftu að flýja, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um Sam­einuðu þjóðanna.

Gervihnattamynd sýnir Zamzam-flóttamannabúðirnar eftir árás RFS í síðustu viku.
Gervi­hnatta­mynd sýn­ir Zamzam-flótta­manna­búðirn­ar eft­ir árás RFS í síðustu viku. AFP/​Max­ar Technologies

Hung­urs­neyð vof­ir yfir

Zamzam-búðirn­ar féllu í hend­ur RSF eft­ir blóðuga árás en talið er að þar hafi allt að ein millj­ón manns haft skjól. Um 150.000 manns flúðu til El-Fasher og 180.000 til bæj­ar­ins Tawila. Mannúðaraðstoð er næst­um eng­in á þess­um svæðum og hung­urs­neyð vof­ir yfir.

Tom Fletcher, mannúðar­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, lýsti ástand­inu í gær sem „skelfi­legu“ og sagði báðar stríðandi fylk­ing­ar hafa lofað fullu aðgengi fyr­ir hjálp­ar­sam­tök.

Samt sem áður seg­ir Clement­ine Nkweta-Salami, yf­ir­maður mannúðar­mála Sam­einuðu þjóðanna í Súd­an, að aðgengi að mannúðaraðstoð í El-Fasher sé enn „hættu­lega tak­markað“.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert