Indversk stjórnvöld saka þau pakistönsku í nágrannaríkinu um hermdarverkastarfsemi landa á milli í kjölfar banvænnar skotárásar í Pahalgam, sem er vinsælt ferðamannasvæði í suðurhluta Kasmír-héraðsins, sem lýtur indverskri stjórn á meðan norðurhluti Kasmír tilheyrir Paskistan.
Ferðamenn virtu þar fyrir sér rómað fjalllendi í gær þegar vígamenn, gráir fyrir járnum, þustu út úr skóglendi spölkorn frá og biðu ekki boðanna heldur hófu skothríð með sjálfvirkum skotvopnum er lyktaði með því að 26 ferðamannanna lágu í valnum og er þar um að ræða mesta mannfall almennra borgara í hryðjuverkaárás síðasta aldarfjórðunginn.
Eru fórnarlömbin öll indversk utan eins Nepala og hefur árásin vakið hörð viðbrögð stjórnvalda í indversku höfuðborginni Nýju-Delí, ekki síst vegna þess að með henni kveður við nýjan tón í atlögum pakistanskra vígamanna er fram til þessa hafa beint spjótum sínum að indverskum öryggissveitum, ekki almennum borgurum svo sem nú.
„Þeir munu aldrei ná sínum illu markmiðum,“ sagði indverski forsætisráðherrann Narendra Modi í dag um leið og hann krafðist þess að þeir er ábyrgðina bæru á þessu „hörmulega verki“ yrðu látnir svara til saka.
Í ávarpi í dag boðaði Rajnath Singh varnarmálaráðherra mótleik Indverja, en engin pakistönsk vígasamtök hafa lýst ódæðinu á hendur sér enn sem komið er. Sagði ráðherra að mótleikurinn færi ekki fram hjá hinum ábyrgu, hann myndi hljóma hátt og hvellt í eyrum þeirra.
Í kvöld kynnti indverska utanríkisráðuneytið þær diplómatísku refsiaðgerðir er Pakistanar fengju að sæta. Indverjar segðu tímabundið upp vatnsaðstoðarsamningnum frá 1960, sem gengur út á gagnkvæma aðstoð nágrannaríkjanna um neyðarvatnsbirgðir á Himalajasvæðinu. Gilti uppsögnin þar til pakistönsk stjórnvöld sverðu trúverðuglega af sér alla aðstoð við vígahópa er stunda árásir við landamærin.
Þá væri stærsta landamærahliðinu milli Indlands og Pakistans lokað auk þess sem nokkrir indverskir sendierindrekar yrðu kallaðir heim frá pakistönsku höfuðborginni Islamabad og einhverjum pakistönskum erindrekum vísað frá Indlandi.
Pakistanska utanríkisráðuneytið sendi aðstandendum hinna látnu samúðarkveðju í dag og kváðust pakistönsk stjórnvöld enn fremur mundu kalla þjóðaröryggisráð sitt saman til að ræða málið.
Um 500.000 indverskir hermenn gegna fastri varðstöðu í Suður-Kasmír en átök þar hafa verið á undanhaldi síðan Modi forsætisráðherra afturkallaði hinn takmarkaða sjálfsstjórnarrétt héraðsins árið 2019.
Árásin í gær var gerð daginn eftir að Modi fundaði með bandaríska varaforsetanum JD Vance í Nýju-Delí.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.