Árásarmaðurinn sem drap samnemanda sinn og særði þrjá til viðbótar í skóla í Frakklandi í dag gaf út stefnuyfirlýsingu skömmu fyrir árásina.
Ein stúlka er látin og að minnsta kosti þrír særðir eftir hnífstungu í Notre Dame de Toutes Aides-menntaskólanum í Nantes. Skólinn var rýmdur.
Árásarmaðurinn, sem er 15 ára gamall nemandi við skólann, var handtekinn á vettvangi eftir að hafa verið yfirbugaður af kennara í skólanum.
Ásetningur árásarmannsins er óljós. Le monde greinir frá því að pilturinn hafi gefið út 13 síðna stefnuyfirlýsingu á innri vef skólans þar sem því er lýst hvernig „hnattvæðing“ hafi „umbreytt kerfinu okkar í vél fyrir rotnandi mannverur“.
Í yfirlýsingunni er kallað eftir „lífrænni uppreisn“ svo að „jafnvægi náttúrunnar“ geti endurheimt stöðu sína gegn „hnattvædda vistmorðinu“. Óljóst er hvort hann hafi skrifað yfirlýsinguna sjálfur.