Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, lýsti í dag yfir gremju vegna mannskæðra flugskeytaárása Rússa á Kænugarð, höfuðborg Úkraínu, þar sem hann þrýsti á báða aðila að samþykkja vopnahlé.
Rússar gerðu stórfellda eldflaugaárás á Kænugarð í nótt þar sem að minnsta kosti níu létust og tugir manna eru særðir.
„Ég er ekki ánægður með árásir Rússa á Kænugarð,“ segir Trump í færslu á samfélagsmiðli sínum, Truth Social, þar sem hann beindi orðum sínum að Vladimír Pútín Rússlandsforseta.
„Ekki nauðsynlegt, og mjög slæm tímasetning. Vladimír, HÆTTU! 5.000 hermenn á viku eru að deyja. Við skulum klára friðarsamkomulagið,“ skrifar Trump.