Myndir af frönsku nunnunni systur Genevieve standa við bæn yfir líki Frans páfa hafa farið sem eldur um sinu um veraldarvefinn. Hin 82 ára nunna braut siðareglur með athæfi sínu, en kardínálar stóðu í biðröð til að votta páfanum virðingu sína og almenningur hafði enn ekki fengið inngöngu í Pétursbasilíkuna.
Genevieve smeygði sér inn og stóð í nokkrar mínútur, bað fyrir vini sínum og þerraði tárin.
Frans páfi og systir Genevieve kynntust fyrir 20 árum. Genevieve hafði ferðast frá Róm til Buenos Aires til að vera viðstödd útför frænku sinnar, Leonie Duquet.
Á þeim tíma var Frans biskup í Buenos Aires og leist Genevieve ekkert á hann, en árum síðar áttu þau eftir að þróa með sér mikla vináttu og vinna saman að því að hjálpa fátækum og jaðarsettum.
Duquet, frænka Genevieve, var einnig frönsk nunna og fórnarlamb einræðisins í Argentínu á sínum tíma. Henni var hent í sjóinn í einu af hinum alræmdu „dauðaflugum“, aðfaranótt 14. desember árið 1977, ásamt annarri franskri nunnu, Alice Domon og tíu aðgerðarsinnum.
Áætlað er að allt að 30.000 manns hafi verið látnir hverfa undir einræðisstjórn argentínska hersins á árunum 1976-1983, margir þeirra pyntaðir og hent í sjóinn.
Lík Duquet skolaðist á land og var grafið í fjöldagröf en fannst árið 2005. Frans, þáverandi biskup í Buenos Aires, samþykkti greftrun hennar á lóð Santa Cruz-kirkjunnar, þar sem hún hafði verið í haldi.
„Ég grét næstum frá upphafi messunnar til enda. Ég gat ekki sætt mig við að hluti kirkjunnar væri á hlið einræðisstjórnarinnar,“ sagði Genevieve í myndbandi sem birt var á YouTube um vináttu hennar við Frans páfa.
Genevieve skrifaði bréf til Frans árið 2005. Henni þótti æðri meðlimir kirkjunnar hafa brugðist sér með því að hafa ekki verið viðstaddir útför frænku hennar.
Frans, sem var á þeim tíma enn þekktur sem Jorge Bergoglio, var viðstaddur kirkjuþing biskupa í Vatíkaninu, en hringdi um leið í hana. Genevieve sagðist ekki hafa fengið fullnægjandi skýringar í símtalinu.
Átta árum síðar stóð hún á Péturstorginu þegar Frans kom fram sem nýr páfi á svölum Pétursbasilíkunnar.
„Ég setti hendurnar á höfuðið og hugsaði, guð minn góður, hvað mun gerast? Ég var hrædd, það er sannleikurinn,“ sagði hún í myndbandinu.
Það var svo boðskapur páfans um kirkju fyrir fátæka sem fékk hana til að skipta um skoðun. Þau þróuðu með sér vináttu eftir að Frans bauð Genevieve í messu á heimili sínu í Santa Marta í Vatíkaninu. Frans heimsótti meira að segja hjólhýsið þar sem Genevieve bjó, í tívolígarði á Tyrrenuströndinni.
Þeir urðu enn nánari í Covid-faraldrinum þegar Genevieve bað Frans um að hjálpa tívolístarfsmönnum sem urðu tekjulausir í faraldrinum og að hitta hóp af trans vændiskonum í Suður-Ameríku.
Eftir heimsfaraldurinn, þegar opinber messa hófst á ný, kom Genevieve í hverri viku með hóp fólks úr LGBTQ+-samfélaginu að hitta páfann.
„Ég skrifaði honum alltaf smá skilaboð til að segja honum hver væri að koma,“ sagði Genevieve.