George Santos, fyrrverandi þingmaður repúblikana í Bandaríkjunum, var í dag dæmdur í 87 mánaða fangelsi fyrir að svíkja fé af pólitískum styrktaraðilum og ljúga um fjármögnun framboðs síns.
Santos játaði sök í fyrra fyrir netfjársvik og alvarlegan auðkennisþjófnað. Hann komst á þing árið 2022 og er helst þekktur fyrir það að hafa logið ítrekað um eigin fortíð.
Hann var rekinn úr fulltrúadeildinni í desember 2023.
Wall Street Journal greinir frá.
Dómarinn Joanna Seybert sagði Santos ekki hafa sýnt neina raunverulega iðrun:
„Hvar er iðrunin? Hvar sé ég hana?“ spurði hún.
Santos sagði í kjölfarið grátandi að hann hefði brugðist trausti kjósenda og styrktaraðila en tók um leið fram að hann gæti ekki endurskrifað fortíðina.
Meðal þess sem hann skáldaði um forsögu sína var til að mynda að hann hefði unnið fyrir Goldman Sachs, að hann væri gyðingur og hefði verið blakstjarna í menntaskóla.
Santos komst inn í fulltrúadeild repúblikana árið 2022 og átti þátt í að flokkurinn náði örlitlum meirihluta. Fljótlega hallaði undan fæti þegar upp komst að hann var ekki sá sem hann sagðist vera.
Saksóknarar lýstu Santos sem „sjúklegum lygara“ en Santos stal meðal annars kreditkortaupplýsingum frá heilaskertum eldri borgurum og lagði fjármuni inn á falska kosningasjóði hjá sér.
Notaði hann svo þá fjármuni til að greiða fyrir lúxusvörur og ferðir til Las Vegas.
Santos á að hefja afplánun fangelsisdómsins 25. júlí og er gert að vera í fangelsi í rúmlega sjö ár.