Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, er nú á leið til Rómar til að vera við útför Frans páfa á morgun.
Þegar Halla kemur til Rómar í dag verður það hennar fyrsta verk að fara að kistu páfa, þar sem hún stendur opin í Péturskirkjunni, og votta honum virðingu sína. Þetta staðfestir Sif Gunnarsdóttir forsetaritari í samtali við mbl.is.
Útför páfa verður gerð frá Péturskirkjunni í Róm á morgun, en athöfnin hefst klukkan 10 að staðartíma.
Þrír fulltrúar íslenskra stjórnvalda verða við útförina, en fyrir utan forseta Íslands eru það Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Einar Gunnarsson, sendiherra Íslands gagnvart Sviss og Páfagarði.
Tæplega 130 þúsund manns hafa nú þegar vottað Frans páfa virðingu sína en kista hans hefur verið aðgengileg almenningi frá því hún var flutt í Péturskirkjuna á þriðjudaginn. Henni verður lokað klukkan 18 í dag að staðartíma.