Það þurfti fjögur þúsund egg, 350 kíló af sykri og 450 lítra af rjóma til að baka 121,8 metra langa jarðarberjaköku sem ku vera sú lengsta sem bökuð hefur verið.
Yfirbakarinn Youssef El Gatou í bænum Argenteuil í útjaðri Parísar fékk í lið með sér 20 bakara til að búa stærstu köku í heimi og tók baksturinn heila viku, og kakan vó 1,2 tonn. Það gefur auga leið að hún komst ekki fyrir í neinni stofu, heldur þurfti að leggja undir inniskautasvell til að koma kökunni fyrir á löngum borðum í kringum svellið svo íbúarnir gætu barið meistaraverkið augum.
El Gatou sagði að hann hefði viljað setja met í einhverju frá því að hann var gutti. Allar líkur benda til þess að sá æskudraumur hafi ræst, því jarðarberjatertan er miklu stærri en 100,48 metra löng jarðarberjakaka sem bökuð var í ítalska bænum San Mauro Torinese árið 2019 og komst í heimsmetabók Guinness.
Til þess að kakan hljóti náð fyrir heimsmetabók Guinness þarf hún að vera að minnsta kosti átta sentimetrar á breidd og átta sentimetrar á hæð og eftir að fulltrúar frá Heimsmetabók Guinness höfðu mælt kökuna í bak og fyrir var kveðið upp með að jarðarberjaterta El Gatou hefði slegið nýtt heimsmet.
Íbúar Argenteuil sem fóru að skoða heimsmetakökuna á skautasvellinu síðasta miðvikudag fengu stykki til að taka með sér.