Luigi Mangione, sem hefur verið ákærður fyrir morðið á Brian Thompson, forstjóra stærsta sjúkratryggingafyrirtækis Bandaríkjanna, lýsti sig saklausan af ákærum alríkisins í dag er hann var leiddur fyrir dóm í New York.
Mangione er ákærður bæði fyrir ríkisdómstól í New York og í alríkisdómstól fyrir morðið. Hann hefur nú lýst sig saklausan í báðum málum, og því verða tvö aðskilin réttarhöld.
Verði hann sakfelldur fyrir ríkisdómstólnum gæti hann átt yfir höfði sér lífstíðardóm án möguleika á reynslulausn.
Verði Mangione fundinn sekur fyrir alríkisdómstólnum mun kviðdómur ákvarða hvort mæla eigi með dauðarefsingu.
Breska ríkisútvarpið greinir frá því að verjendur Mangiones hafi óskað eftir því að réttarhöld fyrir alríkisdómstólnum fari fram fyrst, þar sem möguleiki er þar á dauðarefsingu, en búið var að ákveða að réttarhöld ríkisdómstólsins yrðu á undan.
Þá tilkynnti dómari málsins réttinum að næsta þinghald yrði í desember og verður þá dagsetning réttarhaldanna kynnt.