Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, segir að Rússland og Úkraína séu „mjög nálægt“ vopnahléssamkomulagi og hvetur stríðandi fylkingar til að hittast og ganga frá því formlega.
„Góður dagur í viðræðum og fundum með Rússlandi og Úkraínu. Þær [þjóðirnar] eru mjög nálægt samkomulagi,” skrifaði Trump á Truth Social og bætti við að háttsettir embættismenn beggja ríkja ættu að hittast „til að klára málið.“
Rússland og Úkraína hafa ekki átt í beinum viðræðum um átökin síðan þau hófust í febrúar 2022 en Bandaríkin eiga í viðræðum við báða aðila hvor í sínu lagi í tilraun til að binda endi á átökin.
Steve Witkoff, erindreki Hvíta hússins sem fer fyrir samninganefnd Bandaríkjamanna, fundaði í dag með Vladimír Pútín í þrjá klukkutíma þar sem mögulegt vopnahlé bar á góma.
Trump sagði í viðtali við TIME tímaritið í dag: „Krímskagi mun vera áfram undir stjórn Rússa og Selenskí skilur það.“
Í kjölfarið var Volodimír Selenskí Úkraínuforseti spurður út í þessi ummæli en hann ítrekaði að Krímskaginn, sem Rússar hernámu árið 2014, væri í eigu Úkraínu.