Volodimír Selenskí Úkraínuforseti ítrekar að Krímskaginn sé úkraínskt land en landsvæðið var hernumið af Rússum árið 2014. Bandaríkjaforseti sagði í dag að Krímskaginn yrði áfram undir stjórn Rússa.
Bandaríkin hafa ekki opinberað smáatriðin í friðartillögum sínum, en hafa meðal annars gefið í skyn að yfirráð Rússa á Krímskaga verði viðurkennd gegn friði.
„Afstaða okkar er óbreytt,“ sagði Selenskí við blaðamenn í Kænugarði þegar hann var spurður um Krímaskagann. „Stjórnarskrá Úkraínu kveður á um að öll tímabundnu herteknu svæðin tilheyri Úkraínu.“
Trump sagði í viðtali við TIME tímaritið í dag:
„Krímskagi mun vera áfram undir stjórn Rússa og Selenskí skilur það.“
Steve Witkoff, erindreki Hvíta hússins sem fer fyrir samninganefnd Bandaríkjamanna, fundaði í dag með Vladimír Pútín í þrjá klukkutíma þar sem mögulegt vopnahlé bar á góma.