This is a modal window.
Beginning of dialog window. Escape will cancel and close the window.
End of dialog window.
Enginn vafi leikur á því að stjórnvöld í Bandaríkjunum eru með svarta lista um nemendur sem ekki eru yfirvöldum þóknanlegir að mati Friðjóns R. Friðjónssonar, borgarfulltrúa og áhugamanns um bandarísk stjórnmál.
Sögur berast af því að alþjóðlegir nemendur í Bandaríkjunum óttist um stöðu sína og í frétt Wall Street Journal frá því í gær segir að alþjóðlegir nemendur séu að beita sér fyrir því að skoðanapistlum og öðru sem þeir hafa látið frá sér verði eytt áður en stjórnvöld komast á snoðir um þá.
Steinn Jóhannsson, fyrrum kennari í bandarískum stjórnmálum og Friðjón ræddu við Dagmál mbl.is um aðför Trump-stjórnarinnar að elítu-háskólum í Bandaríkjunum.
„Fólk þarf að fara miklu varlegar núna, bæði þegar það er í háskóla í Bandaríkjunum og þegar fólk er að koma á grundvelli atvinnuleyfis. Fólk þarf að sýna símana sína og það getur verið farið í gegnum samfélagsmiðla, hvernig þú hefur tjáð þig og deilt myndum. Völd innflytjendaeftirlitsins eru gríðarlega mikil og það hefur enginn lögvarin réttindi til að fara inn í landið. Eftirlitið getur því stoppað þig, haldið þér og snúið þér til baka ef þeim líkar ekki eitthvað sem þú hefur sagt eða gert. Ég myndi fara mjög varlega,“ segir Friðjón.