Hundruð þúsunda syrgjenda, þar á meðal leiðtogar víðs vegar að úr heiminum, voru viðstödd jarðarför Frans páfa í dag.
Frá Íslandi voru viðstödd Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Einar Gunnarsson, sendiherra Íslands gagnvart Páfagarði.
Samkvæmt upplýsingum frá Vatíkaninu komu alls um 400.000 manns saman á Péturstorgi og við götur Rómar til að votta virðingu sína og kveðja fyrsta leiðtoga kaþólsku kirkjunnar af rómönskum uppruna.
Á þeim tólf árum sem Frans páfi leiddi kaþólsku kirkjuna lagði hann áherslu á að gera þessa aldagömlu stofnun aðgengilegri fyrir fleiri og sýndi bæði skilning og samkennd gangvart hópum sem áður höfðu verið jaðarsettir gagnvart kirkjunni.
Fráfall hans vakti djúpar tilfinningar og viðbrögð um allan heim.
Giovanni Battista kardínáli flutti prédikun við athöfnina þar sem hann heiðraði embættissetu páfans en hátíðleg athöfnin varði í um tvær klukkustundir.
Kistu páfa var þá ekið á páfabílnum um götur Rómar til kirkju hinnar heilögu Maríu þar sem hann var lagður til hinstu hvílu.
Útför páfa markar upphaf níu daga opinbers sorgartímabils í Vatíkaninu áður en kardínálar koma saman til þings til að kjósa nýjan páfa.