Shehbaz Sharif, forsætisráðherra Pakistan, segist vera tilbúinn í hlutlausa rannsókn á mannskæðri skotárás sem átti sér stað í Pahalgam, vinsælu ferðamannasvæði í suðausturhluta Kasmír-héraðs, á þriðjudag. Svæðið lýtur indverskri stjórn, en norðurhlutinn tilheyrir hins vegar Pakistan.
26 ferðamenn létust árásinni sem er sú mannskæðasta í Kasmír-héraði í aldarfjórðung. Um var að ræða indverska ferðamenn, fyrir utan einn Nepala.
Spenna á milli Indlands og Pakistan hefur aukist hratt í kjölfar árásarinnar en stjórnvöld á Indlandi segja Pakistan bera ábyrgð á henni og hafa meðal annars fyrirskipað öllum pakistönskum ríkisborgurum að yfirgefa landið fyrir 29. apríl.
Óttast er að spennan muni stigmagnast og leiða til hernaðarátaka á milli ríkjanna.
Sharif, forsætisráðherra Pakistan, segir að herinn sé í viðbragðsstöðu og tilbúinn að verja fullveldi landsins, gerist þess þörf.
Lögreglan hefur sagt að tveir árásarmennirnir séu pakistanskir ríkisborgarar og liðsmenn samtakanna Lashkar-e-Taiba (LeT), sem eiga rætur sínar að rekja til Pakistans.
Þó hafa önnur hryðjuverkasamtök, Andspyrnufylkingin (The Resistance Front), TRF, lýst ábyrgð á árásinni. Eru þau samtök talin vera afsprengi LeT.