Volodimír Selenskí Úkraínuforseti og Donald Trump Bandaríkjaforseti áttu „mjög árangursríkan“ fund í Péturskirkjunni Róm í morgun, áður en útför Frans páfa hófst.
Fundurinn stóð í um fimmtán mínútur, en talsmaður stjórnvalda í Úkraínu segir að þeir muni hugsanlega hittast aftur síðar í dag.
Er þetta í fyrsta skipti sem leiðtogarnir hittast síðan þeir áttu hitafund í Hvíta húsinu í lok febrúar þar sem ræða átti mögulegan friðarsamning við Rússa og samkomulag um jarðefnaauðlindir.
Þá sauð nánast uppúr á milli þeirra og vísaði Trump Selenskí á dyr í kjölfar fundarins. Þá höfðu bæði Trump og J.D Vance, varaforseti Bandaríkjanna, sagt Selenskí vanþakklátan og sakað hann um vanvirðingu í garð Bandaríkjanna.
„Trump forseti og Selenskí forseti hittust á einkafundi í dag og áttu mjög árangursríkt samtal,“ sagði Steven Cheung, samskiptastjóri Hvíta hússins, í samtali við AFP og tók fram að frekari upplýsinga væri að vænta af fundi forsetanna.
Trump sagði í gær að Rússland og Úkraínu væru „mjög nálægt“ samkomulagi um vopnahlé og hvatti hann stríðandi fylkingar til að hittast og ganga frá því formlega.