Á þriðja tug létust og fjölmargir særðust í sprengingu við gámahöfn í borginni Bandar Abbas í Íran í gær.
Í kjölfar sprengingarinnar kviknaði eldur og honum fylgdi mikill reykur. Skólar og skrifstofur í allt að 23 kílómetra fjarlægð eru lokuð vegna spengingarinnar.
Nú nemur fjöldi látinna að minnsta kosti 25, að sögn fjölmiðilsins Tasnim sem hefur þetta eftir yfirvöldum á svæðinu.
Eldur geisar enn á svæðinu og talið er að hætta sé á því að hann breiðist enn frekar út. Mikill viðbúnaður er á staðnum. Ekki liggur ljóst fyrir hvað olli sprengingunni.
Masoud Pezeshkian, forseti Írans, vottaði í gær fjölskyldum fórnarlambanna samúð sína. Hann og Eskandar Momeni innanríkisráðherra munu heimsækja svæðið.
Að sögn forsetans særðust hið minnsta 750 manns.
Vinnuvikan í Íran hefst á laugardögum, því voru fjölmargir starfsmenn á svæðinu. Höfnin sem um ræðir heitir Shahid Rajaee, hún er staðsett nálægt Hormuz-sundi þar sem olíuframleiðsla fer fram.