Níu látnir í Vancouver – „Lík út um allt“

Fjöldi fólks er lát­inn eft­ir að bíl var ekið á …
Fjöldi fólks er lát­inn eft­ir að bíl var ekið á mannþvögu á götu­hátíð í Vancou­ver í Kan­ada í Bresku-Kólumbíu. AFP

Að minnsta kosti níu eru látn­ir og fleiri særðir eft­ir að bíl var ekið gegn­um mannþröng á götu­hátíð í Vancou­ver í Kan­ada í nótt.

Lög­regl­an í Vancou­ver í Bresku-Kól­umb­íu grein­ir frá þessu á X. Aðeins einn er grunaður um verknaðinn, þrítug­ur maður sem er nú í varðhaldi. Lög­reglu­yf­ir­völd segj­ast kann­ast við hann en gefa ekki upp hvort hann hafi hreina saka­skrá.

Ásetn­ing­ur meints ger­anda er óljós en lög­regl­an skrifaði á sam­fé­lags­miðla að hún væri „sann­færð“ um að ákeyrsl­an hafi „ekki verið hryðju­verk“. Lög­regl­an hef­ur enn ekki gefið upp hversu marg­ir eru særðir.

At­vikið átti sér stað á Lapu Lapu-hátíðinni í Vancou­ver, sem er hald­in ár­lega af Flipps­ey­ing­um um víða ver­öld til heiðurs samn­efndri frels­is­hetj­u sem sigraði Spán­verja í orr­ust­unni við Mact­an árið 1521.

Þrítug­ur ökumaður er í varðhaldi vegna máls­ins að sögn yf­ir­valda.
Þrítug­ur ökumaður er í varðhaldi vegna máls­ins að sögn yf­ir­valda. AFP

Sá fólk „fljúga“

Fjöl­skyldu­hátíðinni var við það að ljúka þegar svört­um jepp­lingi var skyndi­lega ekið inn í miðja þvög­una. Á ljós­mynd­um af vett­vangi sem eru í dreif­ingu á sam­fé­lags­miðlum má sjá að fram­hlið bíls­ins er gjör­ónýt eft­ir at­vikið. Aðrar mynd­ir sýna lík á víð og dreif um svæðið.

Yoseb Var­deh, sem rak mat­ar­vagn á svæðinu meðan á hátíðinni stóð, seg­ir við Post­media og Vancou­ver Sun að dag­ur­inn hafði verið „ótrú­leg­ur“ fram að at­vik­inu. Hann lýs­ir því svo hvernig hann heyrði í öku­mann­in­um gefa í þegar hann nálgaðist mann­fjöld­ann.

„Og svo lít ég upp og sé fólk fljúga,“ er haft eft­ir hon­um í frétt Vancou­ver Sun. „Ég fer út úr mat­ar­vagn­in­um, ég lít niður veg­inn og það eru bara lík út um allt.“

Ken Sim, borg­ar­stjóri Vancou­ver, seg­ist á X vera sleg­inn yfir at­vik­inu. For­sæt­is­ráðherra lands­ins er einnig harmi sleg­inn.

„Ég er miður mín við að heyra af hræðilega at­b­urðinum á Lapu Lapu-hátíðinni í Vancou­ver,“ skrif­ar Mark Car­ney, for­sæt­is­ráðherra Kan­ada, á X. „Við syrgj­um öll með ykk­ur,“ bæt­ir ráðherr­ann við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert