Kanadamenn ganga til kosninga á morgun þar sem búist er við enn öðrum sigri Frjálslynda flokksins. En líklega mun árás helgarinnar í Vancouver skyggja á kosningarnar.
Mark Carney hafði nýlega tekið við sem forsætisráðherra Kanada og sem formaður frjálslyndra þegar hann boðaði til skyndikosninga í lok mars.
Þá voru Frjálslyndi flokkurinn og Íhaldsflokkurinn nánast hnífjafnir í könnunum en fram að því virtust íhaldsmenn hafa pálmann í höndunum. Í desember leiddu þeir nefnilega kannanir með 25 prósentustigum.
En nú þegar Kanadamenn ganga að kjörborðinu eru frjálslyndir búnir að snúa vörn í sókn og hafa aftur náð talsverðri forystu í skoðanakönnunum.
Að meðaltali mælast frjálslyndir með 42,5% fylgi í skoðanakönnunum. Íhaldsflokkurinn, undir forystu Pierre Poilievre, mælist með 38,7% fylgi, samkvæmt samantekt ríkisútvarps Kanada, CBC.
Þessar niðurstöður myndu tryggja frjálslyndum hreinan meirihluta á þinginu, 189 sæti. En íhaldsmönnum er spáð 125 sætum. Québec-flokknum, sem vill að Québec-fylki verði sjálfstætt ríki, er spáð um 23 sætum.
Í byrjun árs sagði Justin Trudeau af sér sem formaður flokksins og forsætisráðherra landsins til níu ára. Og um svipað leyti steig Donald Trump Bandaríkjaforseti aftur inn í Hvíta húsið.
Trump hefur frá upphafi kjörtímabils síns m.a. átt í hótunum við Kanadamenn um að innlima þá sem 51. ríki landsins, en hefur einnig gert þá að sérstöku skotmarki í tollastríði sínu.
Í aðdraganda kosninga virðist því Trump-skuggi vofa yfir öllum kosningamálum og flokksformennirnir í Kanada hafa í auknu mæli skotið að Trump, í von um að sannfæra samlanda sína um að þeir séu rétti kosturinn til að takast á við Bandaríkjaforsetann.
Annar skuggi vofir þó yfir Kanadamönnum í dag. Að minnsta kosti níu eru látnir og fleiri særðir eftir að bíl var ekið gegnum mannfjölda á götuhátíð í Vancouver í nótt.
Aðeins einn er grunaður um verknaðinn, þrítugur maður sem er nú í varðhaldi. Lögregluyfirvöld segjast kannast við hann en gefa ekki upp hvort hann hafi hreina sakaskrá.
Ásetningur meints geranda er óljós en lögreglan skrifaði á samfélagsmiðla að hún væri „sannfærð“ um að ákeyrslan hafi „ekki verið hryðjuverk“. Lögreglan hefur enn ekki gefið upp hversu margir eru særðir.
Þjóðin er í áfalli eftir atvikið og hafa formenn flokkanna allir vottað fórnarlömbum sína samúð.