Eftir skelfilega hryðjuverkaárás í Kasmírhéraði í Indlandi í síðustu viku, þar sem 26 óbreyttir borgarar voru myrtir, hefur spennan á milli Indlands og Pakistans stóraukist. Þjóðirnar eru erkióvinir og búa báðar yfir fjölmennum herafla sem og kjarnorkuvopnum.
Í kjölfar árásarinnar hefur Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, rætt við tugi heimsleiðtoga og þá hafa diplómatar frá 100 sendiráðum í Nýju Delí verið kallaðir til fundar í utanríkisráðuneytinu.
Samkvæmt heimildum New York Times beinist þessi viðleitni hins vegar síður að því að draga úr spennu við Pakistan, heldur virðist Indland vera að undirbúa málflutning fyrir mögulegar hernaðaraðgerðir gegn nágranna sínum.
Dagblaðið New York Times greinir frá.
Hryðjuverkaárásin var í Pahalgam, sem er vinsælt ferðamannasvæði í suðurhluta Kasmír-héraðsins, sem lýtur indverskri stjórn á meðan norðurhluti Kasmír tilheyrir Pakkistan.
Að sögn vitna komu árásarmennirnir úr nærliggjandi skógi og skutu með sjálfvirkum vopnum. Þeir aðskildu karla frá konum og börnum, og var karlmönnunum skipað að fara með trúarjátningu múslima. Þeir sem það gátu ekki voru teknir af lífi.
Modi hét í ræðu á fimmtudag „þungum refsiaðgerðum“ og útrýmingu „athvarfa hryðjuverkamanna“, án þess þó að nefna Pakistan sérstaklega.
Pakistan hefur í gegnum tíðina stutt mikið við hryðjuverkasamtök en hafna allri aðild að þessari árás.
Indversk stjórnvöld hafa aftur á móti kennt Pakistan um árásina. Lögreglan hefur sagt að tveir árásarmennirnir séu pakistanskir ríkisborgarar og liðsmenn samtakanna Lashkar-e-Taiba (LeT), sem eiga rætur sínar að rekja til Pakistans.
Á fundum með diplómötum hafa Indverjar vísað í fyrri stuðning Pakistans við hryðjuverkahópa og nefnt tæknilegar sannanir, svo sem andlitsgreiningargögn, sem þeir segja tengja árásarmennina við pakistönsk stjórnvöld.
Skothríð hefur átt sér stað á landamærunum undanfarna daga á milli pakistanskra og indverskra hersveita en enn sem komið er hefur það ekki farið úr böndunum.
Um helgina varaði innviðaráðherra Pakistans, Hanif Abbasi, Indland við og minnti á að kjarnorkuvopnaforði Pakistans væri „ekki til sýnis.“
Þá tók hann fram að langdrægum eldflaugum Pakistans, sem bera kjarnorkusprengjurnar, væri öllum „miðað á Indland.“
Viðbrögð Indlands við árásinni hafa verið hörð. Indland ætlar tímabundið að segja upp vatnsaðstoðarsamningi frá 1960, sem felur í sér gagnkvæma aðstoð nágrannaríkjanna við að halda úti neyðarvatnsbirgðum á Himalajasvæðinu.
Einnig verður stærsta landamærahliðinu milli Indlands og Pakistans lokað og öllum pakistönskum ríkisborgurum gert að yfirgefa Indland fyrir 29. apríl, að undanskildum diplómötum.
Pakistan hefur svarað aðgerðunum í sömu mynt. Verður indverskum diplómötum vísað úr landi og vegabréfsáritanir fyrir indverska ríkisborgara afturkallaðar.
Þá hefur Pakistan einnig lokað lofthelgi sinni fyrir indversk flug og sagt að ef Indland reyni að stöðva vatnsflæði neyðarvatnsbirgða verði litið á það sem „stríðsaðgerð“ sem verði svarað af fullum þunga.
Stigmögnun milli Indlands og Pakistans veldur þjóðarleiðtogum mörgum áhyggjum. Þrátt fyrir að Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið hafi hvatt til stillingar, virðist Indland líta á stuðningsyfirlýsingar margra ríkja sem grænt ljós fyrir hörð viðbrögð.
Ríkisstjórn Donalds Trump heitir áfram stuðningi við baráttu Indlands gegn hryðjuverkum, þó óljóst sé hversu djúpt Bandaríkin hyggist blanda sér í málið að þessu sinni.
Að sögn Daniel Markey, sérfræðings við Johns Hopkins-háskóla, bendir margt til þess að Indland íhugi „einhvers konar stórvirka” hernaðaraðgerð. Pakistan hefur á móti heitið því að bregðast við slíkum aðgerðum af enn meiri hörku.
Shiv Shankar Menon, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi í Indlandi, telur þó ólíklegt að deilurnar þróist út í allsherjar stríð.
„Þau [ríkin] eru bæði nokkuð sátt við ástand stjórnaðrar óvildar,“ sagði hann.