Fjöldi fólks er látinn eftir að bíl var ekið á mannþvögu á götuhátíð í Vancouver í Kanada í nótt. Lögreglu grunar ekki að atvikið hafi verið hryðjuverk.
Þrítugur ökumaður er í varðhaldi vegna málsins að sögn yfirvalda. Lögregluyfirvöld segjast kannast við hann frá fyrri málum.
„Á þessum tímapunkti erum við sannfærð um að þetta hafi ekki verið hryðjuverk,“ skrifar lögreglan á X.
Nákvæmur fjöldi fórnarlamba liggur ekki fyrir en lögreglan í Vancouver sagði að „fjöldi fólks“ hefði látið lífið og „margir aðrir“ særst eftir að ökumaðurinn ók inn í fólksfjölda á götuhátíð við Fraser-stræti upp úr kl. 20 að staðartíma (3 að íslenskum tíma).
Atvikið átti sér stað á Lapu Lapu-hátíðinni í Vancouver, sem er haldin árlega af Flippseyingum um víða veröld til heiðurs samnefndri frelsishetju sem sigraði Spánverja í orrustunni við Mactan árið 1521.
Fjölskylduhátíðin var við það að ljúka þegar svörtum jepplingi var skyndilega ekið inn í miðja þvöguna. Á ljósmyndum af vettvangi sem eru í dreifingu á samfélagsmiðlum má sjá að framhlið bílsins er gjörónýt eftir atvikið. Aðrar myndir sýna lík á víð og dreif um svæðið.
Staðarmiðillinn Vancouver Sun ræddi við Abigail Andiso, sem var ásamt vinum sínum í nágreninu er hún heyrði tvo hvelli, og síðan öskur.
Þegar Andiso hljóp í átt að hávaðanum blasti hryllingur við. „Það voru lík á götunni. Það hafði verið keyrt yfir þau,“ segir hún. „Sumir voru þegar dánir á staðnum.“
Yoseb Vardeh, sem rak matarvagn á svæðinu meðan á hátíðinni stóð, segir við Postmedia að dagurinn hafði verið „ótrúlegur“ fram að þessu. Hann lýsir því að hann hafi heyrt í ökumanninum gefa í.
„Og svo lít ég upp og sé fólk fljúga,“ er haft eftir honum. „Ég fer út úr matarvagninum, ég lít niður veginn og það eru bara lík út um allt.“
Ken Sim, borgarstjóri Vancouver, segist á X vera sleginn yfir atvikinu. Forsætisráðherra landsins er einnig harmi sleginn.
„Ég er miður mín við að heyra af hræðilega atburðinum á Lapu Lapu-hátíðinni í Vancouver,“ skrifar Mark Carney, forsætisráðherra Kanada, á X.
„Við syrgjum öll með ykkur,“ bætir ráðherrann við.
Svipuð árás átti nýlega sér stað í New Orleans í Bandaríkjunum í byrjun janúar, þegar 15 létust er maður ók pallbíl í gegnum mannfjölda í Bourbon-stræti.