Lögregla hefur áður þurft að hafa afskipti af unga manninum sem grunaður er um að hafa ekið bíl inn í mannfjölda á götuhátíð í Vancouver í Kanada í nótt. Maðurinn glímir við andleg veikindi.
Þetta sagði Steve Rai, starfandi lögreglustjóri í Vancouver, á blaðamannafundi. Atvikið hafi breytt vinnulagi lögreglunnar í Vancouver til frambúðar.
Hinn grunaði ók svörtum Audi-jeppling inn á afgirt svæði Lapu Lapu-götuhátíðarinnar þar sem fjölmargir voru saman komnir til að fagna filippseyskri menningu. Ellefu manns létu lífið og fjöldi fólks er slasaður.
Lögreglustjórinn þakkaði viðbragðsaðilum fyrir góð störf og lýsti yfir samúð - „við syrgjum með ykkur“. Þá segir hann rannsókn standa yfir.
Að sögn Rai eru fleiri en hundrað lögreglumenn að vinna að málinu. „Þeir hafa verið að hughreysta slasaða, ræða við vitni og safna lykilgögnum á svæðinu,“ sagði hann.
Hættumat hafi verið framkvæmt fyrir viðburðinn og ekki talin þörf á auknum öryggisráðstöfunum.
„Þótt ég sé viss um að hættumat og öryggisáætlun hafi verið traust, munum við vinna með samstarfsaðilum okkar í Vancouver til að endurskoða allar aðstæður sem tengjast áætlun þessa atburðar.“
Jen Idaba-Castaneto var gestur á Lapu Lapu-götuhátíðinni í Vancouver ásamt eiginmanni sínum Jonathan og sagði við BBC að vettvangurinn hafi verið ógnvekjandi.
„Líkamlega er ég í lagi, en í fullri hreinskilni er ég alveg eftir mig. Ég hef verið að fá kvíðaköst eftir að hafa orðið vitni að öllu sem gerðist,“ sagði hún og bætti við: „Ég sá jeppann keyra yfir fólk.“
Það hefði verið nokkuð sem hún hefði aldrei getað ímyndað sér að hún myndi sjá. „Þetta er skelfilegt og mikið áfall fyrir filippseyska samfélagið,“ bætti hún við.