Að minnsta kosti níu eru látnir og fleiri særðir eftir að bíl var ekið gegnum mannþröng á götuhátíð í Vancouver í Kanada í nótt.
Lögreglan í Vancouver í Bresku-Kólumbíu greinir frá þessu á X. Aðeins einn er grunaður um verknaðinn, þrítugur maður sem er nú í varðhaldi. Lögregluyfirvöld segjast kannast við hann en gefa ekki upp hvort hann hafi hreina sakaskrá.
Ásetningur meints geranda er óljós en lögreglan skrifaði á samfélagsmiðla að hún væri „sannfærð“ um að ákeyrslan hafi „ekki verið hryðjuverk“. Lögreglan hefur enn ekki gefið upp hversu margir eru særðir.
Atvikið átti sér stað á Lapu Lapu-hátíðinni í Vancouver, sem er haldin árlega af Flippseyingum um víða veröld til heiðurs samnefndri frelsishetju sem sigraði Spánverja í orrustunni við Mactan árið 1521.
Fjölskylduhátíðinni var við það að ljúka þegar svörtum jepplingi var skyndilega ekið inn í miðja þvöguna. Á ljósmyndum af vettvangi sem eru í dreifingu á samfélagsmiðlum má sjá að framhlið bílsins er gjörónýt eftir atvikið. Aðrar myndir sýna lík á víð og dreif um svæðið.
Yoseb Vardeh, sem rak matarvagn á svæðinu meðan á hátíðinni stóð, segir við Postmedia og Vancouver Sun að dagurinn hafði verið „ótrúlegur“ fram að atvikinu. Hann lýsir því svo hvernig hann heyrði í ökumanninum gefa í þegar hann nálgaðist mannfjöldann.
„Og svo lít ég upp og sé fólk fljúga,“ er haft eftir honum í frétt Vancouver Sun. „Ég fer út úr matarvagninum, ég lít niður veginn og það eru bara lík út um allt.“
Ken Sim, borgarstjóri Vancouver, segist á X vera sleginn yfir atvikinu. Forsætisráðherra landsins er einnig harmi sleginn.
„Ég er miður mín við að heyra af hræðilega atburðinum á Lapu Lapu-hátíðinni í Vancouver,“ skrifar Mark Carney, forsætisráðherra Kanada, á X. „Við syrgjum öll með ykkur,“ bætir ráðherrann við.