Ákærðir fyrir hrottalega nauðgun í Stavanger

Aðalmeðferð nauðgunarmálsins í Stavanger í mars í fyrra fer nú …
Aðalmeðferð nauðgunarmálsins í Stavanger í mars í fyrra fer nú fram fyrir Héraðsdómi Sør Rogaland í nágrannabænum Sandnes þar sem tveir hinna ákærðu eru búsettir. Ljósmynd/Domstol.no

Óhugn­an­legt nauðgun­ar­mál, sem nú er til aðalmeðferðar hjá Héraðsdómi Sør Roga­land í Sand­nes við vest­ur­strönd Nor­egs, hef­ur vakið at­hygli þar um slóðir fyr­ir þær þungu sak­ir sem þrír Sýr­lend­ing­ar, einn und­ir lögaldri, hinir fædd­ir árið 2006, eru born­ir þar fyr­ir rétt­in­um.

Er þeim gefið að sök að hafa hafa ráðist á og nauðgað tveim­ur þrett­án ára göml­um stúlk­um í Stavan­ger í önd­verðan mars í fyrra, þegar sak­born­ing­ar voru sjálf­ir sex­tán og átján ára gaml­ir. Var brotið – sem í ákær­um gagn­vart þeim telst hvort tveggja varða við 299. grein norsku hegn­ing­ar­lag­anna, nauðgun barns und­ir fjór­tán ára aldri, og þá 301., gróf nauðgun barns und­ir fjór­tán ára aldri, framið á laug­ar­degi og bár­ust lög­reglu upp­lýs­ing­ar um það dag­inn eft­ir.

Hand­tók hún tvo sak­born­ing­anna aðfaranótt mánu­dags­ins eft­ir og þann þriðja á mánu­dags­morgn­in­um og varða brot­in sam­kvæmt ákæru ann­ars veg­ar allt að tíu ára fang­elsi, en hins veg­ar allt að 21 árs fang­elsi.

Dreifðu mynd­skeiðum af brot­un­um

Yf­ir­heyrði lög­regl­an í Stavan­ger – sem álít­ur brotið svo al­var­legt að hún neit­ar að gefa upp á lóð hvaða skóla þar í borg­inni það átti sér stað – alla grunuðu strax á mánu­deg­in­um auk þess að taka skýrslu af fórn­ar­lömb­un­um og vitn­um.

Meðal sönn­un­ar­gagna máls­ins eru hvort tveggja upp­tök­ur úr ör­ygg­is­mynda­vél­um og mynd­skeið úr sím­um sak­born­inga sem þeir gerðu af brot­um sín­um gegn stúlk­un­um tveim­ur. Höfðu þeir þegar dreift mynd­skeiðunum um sam­fé­lags­miðla og taldi lög­regl­an í Stavan­ger ástæðu til að benda á að deil­ing mynd­efn­is af of­beld­is­glæp­um teld­ist refsi­vert brot og bæri öll­um, sem á móti slíku mynd­efni tækju, skylda til þess að greina lög­reglu taf­ar­laust frá mót­tök­unni.

Eft­ir því sem verj­end­ur ákærðu hafa sagt norska rík­is­út­varp­inu NRK neita all­ir skjól­stæðing­ar þeirra sök í mál­inu. Reiknað er með dóms­upp­kvaðningu und­ir lok maí­mánaðar.

Uten Filter

NRK

Docu­ment.no (læst áskrift­ar­grein)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert