Óhugnanlegt nauðgunarmál, sem nú er til aðalmeðferðar hjá Héraðsdómi Sør Rogaland í Sandnes við vesturströnd Noregs, hefur vakið athygli þar um slóðir fyrir þær þungu sakir sem þrír Sýrlendingar, einn undir lögaldri, hinir fæddir árið 2006, eru bornir þar fyrir réttinum.
Er þeim gefið að sök að hafa hafa ráðist á og nauðgað tveimur þrettán ára gömlum stúlkum í Stavanger í öndverðan mars í fyrra, þegar sakborningar voru sjálfir sextán og átján ára gamlir. Var brotið – sem í ákærum gagnvart þeim telst hvort tveggja varða við 299. grein norsku hegningarlaganna, nauðgun barns undir fjórtán ára aldri, og þá 301., gróf nauðgun barns undir fjórtán ára aldri, framið á laugardegi og bárust lögreglu upplýsingar um það daginn eftir.
Handtók hún tvo sakborninganna aðfaranótt mánudagsins eftir og þann þriðja á mánudagsmorgninum og varða brotin samkvæmt ákæru annars vegar allt að tíu ára fangelsi, en hins vegar allt að 21 árs fangelsi.
Yfirheyrði lögreglan í Stavanger – sem álítur brotið svo alvarlegt að hún neitar að gefa upp á lóð hvaða skóla þar í borginni það átti sér stað – alla grunuðu strax á mánudeginum auk þess að taka skýrslu af fórnarlömbunum og vitnum.
Meðal sönnunargagna málsins eru hvort tveggja upptökur úr öryggismyndavélum og myndskeið úr símum sakborninga sem þeir gerðu af brotum sínum gegn stúlkunum tveimur. Höfðu þeir þegar dreift myndskeiðunum um samfélagsmiðla og taldi lögreglan í Stavanger ástæðu til að benda á að deiling myndefnis af ofbeldisglæpum teldist refsivert brot og bæri öllum, sem á móti slíku myndefni tækju, skylda til þess að greina lögreglu tafarlaust frá móttökunni.
Eftir því sem verjendur ákærðu hafa sagt norska ríkisútvarpinu NRK neita allir skjólstæðingar þeirra sök í málinu. Reiknað er með dómsuppkvaðningu undir lok maímánaðar.