Maðurinn sem er grunaður um að hafa ekið svörtum Audi-jeppa í mannfjölda á götuhátíð í Vancouver í Kanada í fyrrinótt hefur verið ákærður fyrir morð.
Lögreglan greindi frá þessu í gærkvöld en 11 manns létu lífið og fjöldi fólks er slasaður. Hinn grunaði, Kai-Ji Adam Lo, sem er 30 ára gamall íbúi í Vancouver, hefur verið ákærður í átta liðum fyrir annars stigs morð að sögn lögreglunnar í Vancouver og segir að fleiri ákærur verði lagðar fram.
Maðurinn, sem kom fyrir rétt áður en hann fór aftur í gæsluvarðhald, er sagður glíma við andleg veikindi en lögregla hefur áður þurft að hafa afskipti af honum.
Hann verður leiddur fyrir dómara þann 26. maí næstkomandi. Engin ástæða hefur verið staðfest fyrir árásinni en lögreglan útilokar að um hryðjuverk hafi verið að ræða.