Fjórir unglingar hafa verið dæmdir fyrir að eiga aðild að skotárás á ísraelskt fyrirtæki sem þróar tæknibúnað í hernaðarlegum tilgangi.
Árásin var gerð í fyrra og var skotmaðurinn einungis þrettán ára þegar hún átti sér stað. Hann var því ekki ákærður sökum aldurs. Engan sakaði í árásinni en skotið var á anddyri byggingar þar sem starfsemin fer fram innanhúss.
Lögregla hafði uppi á fjórum ungmennum á aldrinum 15-19 ára og eru þau talin hafa ráðið unga drenginn til verksins.
Tveir 19 ára voru dæmdir til fimm ára fangelsisvistar og fimmtán ára drengur fékk eitt ár og átta mánuði í fangelsi. Hins vegar kom fram í máli saksóknara að óljóst sé hver höfuðpaur árásarinnar hafi verið.
Frá því stríð hófst á Gasasvæðinu í október árið 2023 hafa verið gerðar fjölmargar árásir og skemmdarverk á fyrirtæki og eignir sem eru í eigu Ísraelsmanna í Svíþjóð.
Meðal annars var skotum hleypt af við sendiráð Ísrael í fyrra. Leiddi það til aukinnar öryggisgæslu við sendiráðið.
Sænska leyniþjónustan, Säpo, tilkynnti að grunur léki á því að Íranir stæðu á bak við það að veita glæpagengjum fé til að fremja ofbeldisverk hvar sem ísraelska hagsmuni væri að finna í Svíþjóð.
Íranir neituðu slíkum ásökunum.