Dæmdir fyrir árás á ísraelskt fyrirtæki í Svíþjóð

Árásin var gerð í Gautaborg.
Árásin var gerð í Gautaborg. Ljósmynd/Icelandair

Fjór­ir ung­ling­ar hafa verið dæmd­ir fyr­ir að eiga aðild að skotárás á ísra­elskt fyr­ir­tæki sem þróar tækni­búnað í hernaðarleg­um til­gangi.

Árás­in var gerð í fyrra og var skot­maður­inn ein­ung­is þrett­án ára þegar hún átti sér stað. Hann var því ekki ákærður sök­um ald­urs. Eng­an sakaði í árás­inni en skotið var á and­dyri bygg­ing­ar þar sem starf­sem­in fer fram inn­an­húss.

Lög­regla hafði uppi á fjór­um ung­menn­um á aldr­in­um 15-19 ára og eru þau tal­in hafa ráðið unga dreng­inn til verks­ins.

Tveir 19 ára voru dæmd­ir til fimm ára fang­elsis­vist­ar og fimmtán ára dreng­ur fékk eitt ár og átta mánuði í fang­elsi. Hins veg­ar kom fram í máli sak­sókn­ara að óljóst sé hver höfuðpaur árás­ar­inn­ar hafi verið.

Íran­ar sagðir standa að baki 

Frá því stríð hófst á Gasa­svæðinu í októ­ber árið 2023 hafa verið gerðar fjöl­marg­ar árás­ir og skemmd­ar­verk á fyr­ir­tæki og eign­ir sem eru í eigu Ísra­els­manna í Svíþjóð.

Meðal ann­ars var skot­um hleypt af við sendi­ráð Ísra­el í fyrra. Leiddi það til auk­inn­ar ör­ygg­is­gæslu við sendi­ráðið.

Sænska leyniþjón­ust­an, Säpo, til­kynnti að grun­ur léki á því að Íran­ir stæðu á bak við það að veita glæpa­gengj­um fé til að fremja of­beld­is­verk hvar sem ísra­elska hags­muni væri að finna í Svíþjóð.

Íran­ir neituðu slík­um ásök­un­um.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert