Rússnesk yfirvöld hafa handtekið mann sem sagður er hafa játað að hafa staðið að baki sprengjuárásinni sem felldi undirhershöfðingjann Jaroslav Moskalík síðastliðin föstudag. Moskalík var næstráðandi í aðgerðastjórn landhers Rússa og háttsettur í herráði Rússahers.
Um var að ræða bílsprengju sem sprakk þegar Moskalik var á leið til vinnu í bænum Balasjíkha, sem er skammt austan Moskvu. Aðgerðin er sögð hafa verið á vegum leyniþjónustu Úkraínu (SBU) en talsmenn hennar hafa ekki tjáð sig um málið.
Árásin þykir keimlík annarri árás þar sem hershöfðinginn Ígor Kírillov féll þegar sprengja, falin í rafhlaupahjóli, sprakk fyrir utan heimili hans í desember á síðasta ári. Úkraínska leyniþjónustan hefur viðurkennt aðild sína að þeirri árás.