Það gæti tekið allt að tíu klukkustundir að koma rafmagni aftur á á Spáni. Borgarstjóri Madrídar hefur beðið íbúa um að halda kyrru fyrir eins og unnt er.
Rafmagnslaust varð á Spáni og Portúgal fyrr í dag. Þá varð einnig rafmagnslaust í suðurhluta Frakklands en þar hefur rafmagni verið komið aftur á.
Breska ríkisútvarpið greinir frá því að Eduardo Prieto, yfirmaður fyrirtækisins Red Electrica, sem sér um raforkuflutning í landinu, hafi tjáð blaðamönnum að það gæti tekið á milli sex til tíu klukkustundir að koma rafmagni aftur á.
Þá hefur borgarstjóri Madríd, José Luis Martínez-Almeida, birt myndband á félagsmiðlum þar sem hann hvetur íbúa borgarinnar að halda kyrru fyrir og reyna að takmarka ferðir sínar til að halda vegum opnum.
Forsætisráðherra Spánar, Pedro Sanchez, hefur boðað til neyðarfundar vegna ástandsins.
Greinir skrifstofa forsætisráðuneytisins frá því að fundurinn muni fara fram í höfuðstöðvum ríkisstjórnarinnar í Madríd.
Breska ríkisútvarpið hefur greint frá því að símasamband virðist vera komið aftur á í borginni Valencia, en þar höfðu símar, líkt og annars staðar, ekki náð sambandi síðustu tvo tíma.
Fréttin verður uppfærð.