Fólk hefur reynt í örvæntingu að taka út peninga í hraðbönkum og fjöldi fólks þyrpist um göturnar að reyna að ná símasambandi í víðtæku rafmagnsleysi á Spáni og Portúgal.
Iðnaðarmaðurinn Carlos Condori var um borð í lest í neðanjarðarlestarkerfi Madrídar, höfuðborgar Spánar, þegar rafmagnsleysið varð þess valdandi að lestin stöðvaðist.
„Ljósið slokknaði og lestin staðnæmdist, en hún náði svo að mjakast að lestarpallinum,“ sagði hann við blaðamann AFP fyrir utan lestarstöðina.
„Fólki var mjög brugðið, þetta hefur aldrei gerst á Spáni. Það er ekkert símasamband, ég get ekki hringt í fjölskylduna mína, foreldra mína eða neitt. Ég kemst ekki einu sinni í vinnuna.“
Rafmagnsleysið varð einnig til þess að umferðarljós slokknuðu og lögregla varð að reyna að stjórna umferðarþunganum.
Skrifstofustarfsfólk og íbúar í húsum á svæðinu þyrptust á göturnar, þakklátir fyrir að hafa ekki orðið fast inni í lyftum bygginganna.
Marina Sierra, sem er nemi, átti í fullu fangi með að reyna að ná sambandi við föður sinn og reyna að finna sér leið heim þegar blaðamaður AFP mætti henni á götunni, eftir að skólanum hennar var lokað.
„Byggingin sem við vorum í gaf allt í einu frá sér reyk, þeir urðu að rýma bygginguna í flýti. Ég er eiginlega í losti, allt er einhvern veginn stjórnlaust.“
Laia Montserrat er nemandi sem er búsett í um klukkustundarfjarlægð frá Barcelona. Hún var í miðri kynningu þegar rafmagnsleysið skall á skólanum hennar.
„Þegar netsamband náðist ekki á ný var okkur sagt að fara heim, en það eru engar lestir í umferð heldur,“ sagði hún við blaðamann AFP.
Leonor Abecasis, ferðamaður frá Portúgal, var stödd í miðri verslun þegar allt varð skyndilega dimmt.
„Við erum að bíða eftir að rafmagnið komi aftur á,“ sagði hún og bætti við að hún hefði örlitlar áhyggjur af áætluðu flugi sínu til Lissabon seinna í dag.
„Við höfum lifað af heimsfaraldur, ég efast um að þetta sé verra,“ segir Pilar Lopez, vegfarandi í Madríd.
„Þetta er eins og með allt annað, maður venst þessu og áttar sig á að þetta er enginn heimsendir.“
Þá segir hún rafmagnsleysið gott tækifæri til endurskoðunar á stefnu samfélagsins.
„Kannski ættum við að horfa aftur til einfaldari tíma fortíðarinnar og reiða okkur ekki svona svakalega á rafmagn. Ég get ekki einu sinni borgað af því að síminn minn virkar ekki. Stundum þarf maður að vera meira gamaldags og þetta sannar það.“