Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, ávarpaði nú fyrir stundu spænsku þjóðina í sjónvarpi vegna rafmagnsleysisins sem herjaði á Portúgal og Spán í dag.
Staðfesti hann að verið væri að vinna að því að koma rafmagninu aftur á, og að þegar væri búið að koma rafmagni aftur á í sumum héruðum Spánar, aðallega í norðri og suðri, þar sem landið hefði notið aðstoðar frá Frökkum og Marokkómönnum. Sagðist Sánchez eiga von á því að rafmagn yrði komið á allt landið fljótlega.
Skoraði Sánchez á samlanda sína að sýna „virðingu og drengskap“ til þess að aðstoða yfirvöld við að koma aftur á reglu eftir rafmagnsleysi, og fæli það meðal annars í sér að nota síma sem minnst, þar sem mikið álag væri á samskiptakerfum landsins. Þá væri ráð að forðast óþarfa ferðalög.
Jafnframt sagði Sánchez að spænsk stjórnvöld hefðu engar „óyggjandi“ upplýsingar eða sannanir fyrir því hvað hefði valdið rafmagnsleysinu.
„Það er betra að vera ekki með vangaveltur, við munum vita ástæðuna, við útilokum ekki neina tilgátu,“ sagði Sánchez.