Bandaríkjaher hefur á síðustu mánuðum tapað fokdýrum hergögnum á Rauðahafi. Orrustuþota féll fyrir borð á flugmóðurskipi í dag og Hútum hefur að sögn tekist að skjóta niður sjö dróna á síðustu vikum.
Bandaríkin hafa tapað sjö drónum af tegundinni MQ-9 Reaper í nágrenni við Jemen frá því um miðjan mars, samkvæmt heimildum AFP innan hersins. Hver dróni kostar um 30 milljónir bandaríkjadala (3,8 ma. kr.).
CNN greindi frá því í vikunni að uppreisnarmenn Húta hefðu skotið drónana niður en þeir eru nýttir bæði í könnunarflug – til að bera kennsl á hergögn Húta – og í árásir.
„Það hafa verið sjö MQ-9 sem hafa farið farið niður frá 15. mars,“ hefur AFP eftir ónafngreindum bandarískum ráðamanni sem tekur þó ekki fram hvers vegna flygildin hafa horfið. Síðasta drónahvarf hafi verið þann 22. apríl.
Herþota af gerðinni F/A-18 Super Hornet glataðist einnig í dag, að sögn sjóhersins, þegar hún féll fyrir borð á flugmóðurskipinu USS Harry S. Truman. Einn sjómaður slasaðist.
CNN hefur eftir ráðamanni að dráttarbíll hafi verið að draga þotuna úr skýli á flugmóðurskipinu þegar skipið þurfti skyndilega að taka krappa beygju undan flugskeytum Húta. Í yfirlýsingu hersins segir að áhöfnin hafi „mist stjórn“ á þotunni, sem datt fyrir borð ásamt dráttarbílnum.
Annar ráðamaður segir við CNN að þotan hafi sokkið en slík þota er metin á um 60 milljónir bandaríkjadala (7,6 ma.kr.).
Í desember var greint frá því þegar áhöfnin á stýriflaugaherskipinu USS Gettysburg skaut óvart niður F/A-18 herþotu á vegum USS Truman. Í febrúar varð árekstur milli Trumans og egypsks flutningaskips á Súesskurði.
Bandaríkin hafa gert árás á Húta nær daglega frá því um miðjan mars. Í gær tilkynnti aðgerðastjórn hersins að Bandaríkin hefðu hæft fleiri en 800 skotmörk og fellt hundruð uppreisnarmanna Húta, þar á meðal nokkra leiðtoga.
Hútar, sem njóta stuðnings írönsku klerkastjórnarinnar, hafa skotið að flutningaskipum á Rauðahafi frá því um haustið 2023 til að sýna stuðning með Palestínumönnum, sem hafa þurft að þola árásir á Gasaströndinni frá því að Hamas-hryðjuverkasamtökin gerðu árás á Ísrael þann 7. október 2023.
Árásir Húta hafa þannig hindrað ferðir flutningaskipa um Súesskurð, en þar fer um 12% allrar umferðar um höf heims. Skip hafa því oft þurft að sigla suður undir Afríku til að komast leiðar sinnar.
Bandaríkin hófu árásir á Húta undir stjórn Joe Biden, þáverandi Bandaríkjaforseta, en þegar Donald Trump steig í embættið í janúar hét hann því að halda aðgerðunum áfram þar til Hútar væru ekki lengur ógn við flutningaleiðir.