Rússland segist reiðubúið til að hefja friðarviðræður við Úkraínu „án skilyrða“. Þess er þó krafist að yfirráð landsins yfir fimm úkraínskum héruðum verði viðurkennt.
„Rússneska hliðin hefur ítrekað staðfest vilja sinn, eins og forsetinn hefur staðfest, til að hefja viðræður við Úkraínu án nokkurra skilyrða,“ segir talsmaður rússnesku Kreml, Dmítrí Peskov, við ríkisfjölmiðla.
Ummælin koma í kjölfar þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti dró í efa vilja Vladimírs Pútín Rússlandsforseta til að stöðva innrásarstríðið.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hefur einnig tjáð sig um friðarviðræðurnar í samtali við brasilíska miðilinn O Globo.
„Alþjóðleg viðurkenning á yfirráðum Rússlands yfir Krímskaga, Sevastópol, Luhansk- og Donetsk-lýðveldunum, auk Kherson- og Zaporizjzja-héraða, er ófrávíkjanleg krafa,“ sagði Lavrov og notaði þar heiti sem Kreml notar yfir úkraínsku héruðin.
Trump Bandaríkjaforseti gagnrýndi Pútín á laugardag í kjölfar áframhaldandi árása á Úkraínu.
„Það var engin ástæða fyrir Pútín að skjóta flugskeytum inn á íbúðarsvæði, borgir og bæi, síðustu daga,“ skrifaði Trump á miðil sinn Truth Social.
„Sem fær mig til að velta fyrir mér hvort hann vilji kannski ekki stöðva stríðið, hann er bara að draga mig á asnaeyrunum og ég verð að bregðast við á annan hátt, með „bankastarfsemi“ eða „frekari refsiaðgerðum?“ Of margir eru að deyja!!!“
Í gærkvöldi tjáði svo Trump fjölmiðlum að hann teldi að Volodimír Selenskí Úkraínuforseti væri reiðubúinn að fallast á að Rússland myndi halda Krímskaga sem hluta af friðarsamkomulagi.
Úkraína hefur áður hafnað slíkri tillögu.