Víðtækt rafmagnsleysi hefur orðið víða á Spáni og Portúgal. Einnig varð rafmagnslaust í suðurhluta Frakklands, en þar hefur nú náðst að koma rafmagni aftur á.
Breska ríkisútvarpið greinir frá því að umferðateppur hafi nú myndast í spænsku höfuðborginni Madríd sökum bilaðra umferðarljósa.
Spænska fyrirtækið Red Electrica, sem sér um raforkuflutning í landinu, hefur staðfest rafmagnsleysi um allt land.
Unnið er að því að koma rafmagni aftur á og greina orsök rafmagnsleysisins sem hefur haft áhrif á milljónir manna.
Er nú niðamyrkur í mörgum fyrirtækjum og verslunum víða um Madríd en einnig hefur netþjónusta raskast.
Þá hefur leik á opna tennismótinu í Madríd hefur verið frestað og eru áhorfendur mótsins nú að yfirgefa svæðið í myrkri.
Í Lissabon, höfuðborg Portúgals, urðu umferðarljós fyrir áhrifum. Þá hefur verið greint frá að lestarsamgöngur séu stopp og hefur farþegum verið komið úr lestum.
Langar biðraðið hafa einnig myndast í borginni við hraðbanka vegna bilunar við greiðslumiðlun.
AFP-fréttaveitan greinir frá því að Evrópusambandið sé nú í samskiptum við Spán og Portúgal þar sem reynt er að komast að orsök rafmagnsleysisins.
Að sögn talsmanns framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins mun stjórnin halda áfram að fylgjast með ástandinu og tryggja að upplýsingaskipti milli allra viðeigandi aðila gangi snurðulaust fyrir sig