Blaðamaður mbl.is er staddur við Hjalmar Brantingsgötu í Uppsölum í Svíþjóð þar sem skotárás var gerð við hárgreiðslustofu fyrr í dag. Að sögn hans eru drónar á sveimi við hárgreiðslustofuna sem er á jarðhæð í fjölbýlishúsi í íbúðahverfi. Árásin þykir óvenjuleg þar sem hún er gerð um hábjartan dag.
Hann er þar ásamt miðlum í Uppsala, ríkissjónvarpi Svíþjóðar SVT og alþjóðlegum miðlum á borð við Reuters.
Minnst þrír eru látnir.
„Ég sé sjö til átta lögreglumenn á vettvangi en það er búið að loka öllum nærliggjandi götum. Svo gengur lögregla á milli húsa að leita vitna í nærliggjandi byggingum,“ segir Gunnlaugur Snær Ólafsson blaðamaður á mbl.is.
Hann segir að íbúar í Uppsala kippi sér orðið lítið við þegar uppgjör er í undirheimum borgarinnar en hins vegar hefur ekkert verið staðfest hvort svo sé í þessu tilfelli. Það sem vekur athygli er að árásin var gerð í rótgrónu hverfi þar sem atvik af þessu tagi eru fátíð.
„En einnig er umfang árásarinnar óvenjulegt enda þrír látnir og þetta er um hábjartan dag. Afleiðingarnar eru alvarlegri en vanalega,“ segir Gunnlaugur. Ekki hefur verið gefið upp hverjir hinir látnu eru.
„Ég spurði lögregluna nánari fregna en þeir sögðu að ekkert frekar verði gefið upp á þessari stundu,“ segir Gunnlaugur.
Fjöldi manns var í miðbænum þegar skotárásin var gerð þar sem vorhátíð er á morgun, sem er frídagur. Lögregla hefur gefið það út að hún leiti að einum einstaklingi en hann er sagður hafa flúið af vettvangi á rafhlaupahjóli.
Gunnlaugur býr í um 10-15 mínútna göngufjarlægð frá þeim stað þar sem skotárásin var gerð, rétt norðan við lestarstöðina.
„Ég var á leiðinni heim úr búðinni þegar ég sá þyrlu á lofti sem mér skilst að hafi verið að leita að manninum. Það var áður en ég vissi hvað hafði gerst,“ segir Gunnlaugur.