Orsök víðtæks rafmagnsleysis á Spáni og í Portúgal í gær er enn óljós en sérfræðingar hafa nú sagt mikið traust landanna á sólar- og vindorku hafa berskjaldað orkukerfi Íberíuskagans.
Flugvélar voru kyrrstæðar, lestir staðnæmdust og heilar borgir voru án rafmagns, nettengingar og annarrar nauðsynlegrar þjónustu. Talað er um mesta rafmagnsleysi í Evrópu hingað til.
Endurnýjanleg og kolefnisminni raforkuframleiðsla Spánar hefur aukist á undanförnum árum. Fyrir tveimur áratugum kom meira en 80% af orku landsins frá brennslu jarðefnaeldsneytis og kjarnorku. Minna en 5% kom frá sólar- og vindorku. Árið 2023 komu 50,3% af rafmagni landsins frá endurnýjanlegri orku.
Í gær var hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa aftur á móti mun hærra. Um hádegisbil, rétt áður en kerfið hrundi, var sólarorka að útvega um 53% af rafmagni Spánar og önnur 11% komu frá vindorku, samkvæmt gögnum Red Eléctrica. Gas var aðeins að útvega um 6% af rafmagninu.
Hefðbundin orkukerfi hafa vélbúnað sem gerir þeim kleift að halda áfram að starfa þrátt fyrir spennuhækkun eða rafmagnsleysi. Sólar- og vindorkukerfi hafa ekki sömu getu.
Neyddust Spánverjar því til að virkja neyðarráðstafanir til að endurheimta rafmagn sums staðar í norður- og suðurhluta landsins, þar á meðal þurfti að kveikja aftur á vatnsaflsvirkjunum um allt land og flytja inn orku um risastóra sæstrengi frá Frakklandi og Marokkó.
Orkukerfi þurfa svokallaða tregðu til að halda jafnvægi og stöðugri tíðni á kerfinu. Tregða er sköpuð af rafölum með snúningshlutum – svo sem hverflum sem ganga fyrir gasi, kolum eða vatnsorku – sem vind- og sólarorkukerfi hafa ekki.
Tregðu hefur verið líkt við höggdeyfa í fjöðrun bíla, sem draga úr áhrifum ójafna í veginum og halda bílnum stöðugum.
„Í umhverfi með lítilli tregðu getur tíðnin breyst mun hraðar. Ef veruleg bilun hefur orðið í rafkerfinu á einu svæði, netárás eða hvað sem það kann að vera, hafa kerfisstjórar því minni tíma til að bregðast við. Þetta getur leitt til keðjuverkandi bilana ef ekki næst stjórn fljótlega,“ sagði sjálfstæði orkugreinandinn Kathryn Porter.
Richard Tice, formaður breska hægriflokksins Reform UK og talsmaður orkumála, segir að líta megi á rafmagnsleysið sem viðvörun um áhættur þessara orkukerfa.
„Við þurfum að fá að vita nákvæmlega hvað gerðist en þetta er áminning fyrir umhverfisverndarsinna. Raforkukerfi þurfa að starfa innan þröngra marka til að viðhalda stöðugleika.
Aftur á móti er framleiðsla vind- og sólarorku mjög breytileg yfir bæði löng og stutt tímabil, sem eykur áhættu í kerfinu. Rekstraraðilar raforkukerfisins í Bretlandi og ríkisstjórnin ættu að fylgjast vel með gangi mála.“