Segja orsökina liggja í sólar- og vindorku

Ferðamenn liggja á gólfinu á Atocha-lestarstöðinni, þar sem þeir eyddu …
Ferðamenn liggja á gólfinu á Atocha-lestarstöðinni, þar sem þeir eyddu nóttinni. AFP/Oscar Del Pozo

Or­sök víðtæks raf­magns­leys­is á Spáni og í Portúgal í gær er enn óljós en sér­fræðing­ar hafa nú sagt mikið traust land­anna á sól­ar- og vindorku hafa ber­skjaldað orku­kerfi Íberíu­skag­ans.

Flug­vél­ar voru kyrr­stæðar, lest­ir staðnæmd­ust og heil­ar borg­ir voru án raf­magns, netteng­ing­ar og annarr­ar nauðsyn­legr­ar þjón­ustu. Talað er um mesta raf­magns­leysi í Evr­ópu hingað til.

End­ur­nýj­an­leg og kol­efn­isminni raf­orku­fram­leiðsla Spán­ar hef­ur auk­ist á und­an­förn­um árum. Fyr­ir tveim­ur ára­tug­um kom meira en 80% af orku lands­ins frá brennslu jarðefna­eldsneyt­is og kjarn­orku. Minna en 5% kom frá sól­ar- og vindorku. Árið 2023 komu 50,3% af raf­magni lands­ins frá end­ur­nýj­an­legri orku.

Í gær var hlut­fall end­ur­nýj­an­legra orku­gjafa aft­ur á móti mun hærra. Um há­deg­is­bil, rétt áður en kerfið hrundi, var sól­ar­orka að út­vega um 53% af raf­magni Spán­ar og önn­ur 11% komu frá vindorku, sam­kvæmt gögn­um Red Eléctrica. Gas var aðeins að út­vega um 6% af raf­magn­inu.

„Get­ur leitt til keðju­verk­andi bil­ana“

Hefðbund­in orku­kerfi hafa vél­búnað sem ger­ir þeim kleift að halda áfram að starfa þrátt fyr­ir spennu­hækk­un eða raf­magns­leysi. Sól­ar- og vindorku­kerfi hafa ekki sömu getu.

Neydd­ust Spán­verj­ar því til að virkja neyðarráðstaf­an­ir til að end­ur­heimta raf­magn sums staðar í norður- og suður­hluta lands­ins, þar á meðal þurfti að kveikja aft­ur á vatns­afls­virkj­un­um um allt land og flytja inn orku um risa­stóra sæ­strengi frá Frakklandi og Mar­okkó.

Orku­kerfi þurfa svo­kallaða tregðu til að halda jafn­vægi og stöðugri tíðni á kerf­inu. Tregða er sköpuð af raföl­um með snún­ings­hlut­um – svo sem hverfl­um sem ganga fyr­ir gasi, kol­um eða vatns­orku – sem vind- og sól­ar­orku­kerfi hafa ekki.

Tregðu hef­ur verið líkt við högg­deyfa í fjöðrun bíla, sem draga úr áhrif­um ójafna í veg­in­um og halda bíln­um stöðugum.

„Í um­hverfi með lít­illi tregðu get­ur tíðnin breyst mun hraðar. Ef veru­leg bil­un hef­ur orðið í raf­kerf­inu á einu svæði, netárás eða hvað sem það kann að vera, hafa kerf­is­stjór­ar því minni tíma til að bregðast við. Þetta get­ur leitt til keðju­verk­andi bil­ana ef ekki næst stjórn fljót­lega,“ sagði sjálf­stæði orku­grein­and­inn Kat­hryn Port­er.

Líta á raf­magns­leysið sem viðvör­un

Rich­ard Tice, formaður breska hægri­flokks­ins Reform UK og talsmaður orku­mála, seg­ir að líta megi á raf­magns­leysið sem viðvör­un um áhætt­ur þess­ara orku­kerfa.

„Við þurf­um að fá að vita ná­kvæm­lega hvað gerðist en þetta er áminn­ing fyr­ir um­hverf­is­vernd­arsinna. Raf­orku­kerfi þurfa að starfa inn­an þröngra marka til að viðhalda stöðug­leika.

Aft­ur á móti er fram­leiðsla vind- og sól­ar­orku mjög breyti­leg yfir bæði löng og stutt tíma­bil, sem eyk­ur áhættu í kerf­inu. Rekstr­araðilar raf­orku­kerf­is­ins í Bretlandi og rík­is­stjórn­in ættu að fylgj­ast vel með gangi mála.“

Tel­egraph

Starfsmaður Rauða krossins gefur ferðamönnum vatn á Joaquin Sorolla-lestarstöðinni.
Starfsmaður Rauða kross­ins gef­ur ferðamönn­um vatn á Joaquin Sorolla-lest­ar­stöðinni. AFP/​Jose Jor­d­an
Ferðamenn með teppi frá Rauða krossinum.
Ferðamenn með teppi frá Rauða kross­in­um. AFP/​Jose Jor­d­an
AFP/​Javier Soriano
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert