Að minnsta kosti þrír eru látnir eftir skotárás við hársnyrtistofu í Uppsölum í Svíþjóð fyrr í dag. Lögreglan leitar nú að byssumanninum, sem er sagður hafa flúið af vettvangi á rafhlaupahjóli.
Lögreglan staðfestir að þrír séu látnir, samkvæmt umfjöllun sænska ríkisútvarpsins. Ekkert hefur verið gefið út um hversu margir eru særðir.
Fyrr í dag var greint frá stórri lögregluaðgerð við Vaksala-torg í miðborg Uppsala eftir að tilkynningar bárust um skothvelli í hverfinu upp úr klukkan 17 að staðartíma, eða 15 að íslenskum.
Skotárásin tengist hársnyrtistofu við torgið, að sögn Aftonbladet.
Lögreglan hefur lokað stóru svæði í miðborginni. Fjöldi vitna hefur lýst háværum skothvellum að sögn upplýsingafulltrúa lögreglunnar.
Vitni á vettvangi lýsa atburðunum sem skelfilegum. „Ég heyrði fimm skot. Síðan sá ég fólk hlaupa í allar áttir og fela sig,“ segir ónafngreint vitni í samtali við SVT.
„Þetta er mjög alvarlegt atvik,“ hefur Aftonbladet eftir Magnus Jansson Klarin lögreglufulltrúa. Lögregla vinnur nú að því að tryggja öryggi á svæðinu.
Á morgun halda Svíar upp á Valborgarmessu, sem er haldin aðfarakvöld 1. maí til heiðurs heilagri Valborgu.